Grannréttindi höfundarréttar

1.0. Forsaga grannréttinda.

1.1. Grannréttindi nutu ekki í upphafi verndar.

Saga höfundaréttar felur í sér vissa þróun samfara aukinni tæknivæðingu. Höfundaréttur snýst um það hvað teljist til verka, sem njóta þurfi verndar þegar verkin birtast almenningi. Í upphafi var það uppfinning prentlistarinnar sem var grundvöllur fyrir höfundarréttarlega vernd. Vernd á prentuðu efni var nauðsyn gagnvart óheimilli fjölföldun á því sem út hafði verið gefið á prenti. Næst snerist verndin um rétt þýðenda (nú nefnt aðlögunarréttur) yfir bókmenntaverkum, sem út höfðu verið gefin. Allt fram á miðja 19. öld var prentlistin eina tæknilega leiðin til að birta almeningi bókmenntaverk. Ef um var að ræða leiklist eða tónverk var leiðin til almennings beinn flutningur á viðkomandi verki. Í tilvikum annarra listrænna verka voru það sýningar. Á seinni hluta 19. aldar komu til sögunnar nýjar tækniaðferðir til dreifingar listflutnings svo sem ljósmyndir, hljóðritanir og gerð þögulla kvikmynda. Á 20. öldinni komu til skjalanna kvikmyndir með hljóði, útvarp, sjónvarp og nýjar leiðir svo sem stafræn tækni og margmiðlun hvers konar m.a. með gagnvirkri notkun með tölvum á Internetinu. Með þessari viðbót breyttist svið höfundarréttarins algerlega.

Tvö vandamál komu þá upp, í fyrsta lagi varð að ákveða hvaða rétt höfundar ættu gagnvart þessari nýju notkun á verkum þeirra og í öðru lagi varð að ákveða hvort þessi nýju verk þyrftu að njóta sérstakrar verndar samkvæmt höfundarétti. Það var fljótt ljóst í byrjun 20. aldar að ljósmyndir, kvikmyndir og hljóðritanir þyrftu á höfundarréttarlegri vernd að halda. Aðalvandamálið snerist um það, hver væri hinn upphaflegi rétthafi höfundarréttar, hvert umfang réttarins væri og hversu lengi hann ætti að gilda.

Þegar hljóðritanir komu fram á sjónarsviðið komu ýmsar spurningar upp í sambandi við rétthafa. Hvernig átti að skilgreina listamennina, sem fluttu verkið og upptökustjóra og hljóðblandara í hljóðverum, sem tóku lokaákvörðun með listamanninum um hvernig frá verkinu skyldi gengið? Átti að skilgreina þá sem meðhöfunda að verkinu eða átti að finna nýja skilgreiningu? Hin alþjóðlega niðurstaða var sú að réttur þessara aðila væri ekki höfundaréttur heldur réttur, sem tengdist rétti höfundar þ.e.a.s. hliðstæð réttindi eða grannréttur (á ítölsku: Diritti Conessi) ( á þýsku: Verwandte Schutzrechte) ( á frönsku: Droits Voisins) ( á ensku: Neighbouring rights).

Grannréttindi byggjast nær ávallt á meðhöndlun á þegar sömdum verkum. Listflytjendur njóta því einungis verndar ef þeir flytja verk samkvæmt skilgreiningu höfundarlaga. Hér fellur t.d. ekki undir flutningur fjölleikafólks í fjölleikahúsi (trúðar, sjónhverfingamenn, loftfimleikamenn) og t.d. sýning fimleikafólks og skautaíþróttamanna. Í Danmörku kom hins vegar fram tillaga meiri hluta höfundarréttarnefndar árið 1994 um að vernda flutning fjölleikafólks og látbragðsleikara. Ennfremur að vernda listflytjendur gegn því að líkt væri eftir flutningi þeirra. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga, enda hefði þá Danmörk verið eitt fárra landa í heiminum með slíka réttarvernd. Hljómplötur eru nær ávallt hljóðritanir á verkum í höfundarréttarlegum skilningi (fuglasöngur t.d. og umhverfishljóð falla þar ekki undir) en samkvæmt íslenskum höfundalögum er það hins vegar ekki skilyrði fyrir vernd hljóðrita að þau geymi listflutning eins og fram kemur í athugasemdum um 46. grein frumvarps til höfundalaga sem lagt var fram á Alþingi og varð að lögum árið 1972. Útvarp byggist að miklu leyti á flutningi á verkum sem njóta verndar í höfundarréttarlegum skilningi. Þar eru þó undanskildar t.d. útsendingar frá íþróttaviðburðum, ýmsar opinberar tilkynningar og þess háttar.

Afleidd eða aðlöguð verk geta verið margs konar. Fyrst má telja þýðingu á bókmenntaverki á annað tungumál. Í öðru lagi má nefna útsetningu á tónverki annað hvort í átt að viðameira verki t.d. þegar útsettur er undirleikur undir einsöngsverk fyrir hljómsveit eða í átt að einföldun t.d. þegar hljómsveitarútsetningu á hljómsveitarverki er breytt í píanóverk. Síðar fylgdi önnur aðlögun á verkum, sem fólst í því að breyta um miðil, til dæmis þegar bókmenntaverki er breytt í kvikmynd eða leikriti í útvarps- eða sjónvarpsleikrit.

Slík breyting á upprunalegu verki telst aðlögun og nýtur verndar samkvæmt 5. grein höfundalaga. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um höfundarétt, sem lagt var fram á Alþingi á 92. löggjafarþingi 1971-1972 kemur fram í umfjöllun um þá grein, að í höfundalöggjöf sumra landa hafi listflutningur, t.d. söngvara, hljóðfæraleikara, leiksviðsleikara o.fl., verið talin aðlögun á verki því sem flutt var. Þetta sjónarmið hefur þó ekki hlotið almenna viðurkenningu og eftir setningu alþjóðasáttmála um vernd listflytjenda o.fl. í Róm 1961, mun þetta vera úr sögunni. Enn síður getur upptaka tónverks á hljómplötur talist til aðlögunar á verkinu, þó að svo hafi verið talið í dönsku höfundalögunum frá 1933, en frá því hafði verið horfið í hinum nýju dönsku höfundalögum frá 1961.

Einkenni á grannréttindum eru, að yfirleitt eiga þar margir hlut að máli og þá jafnframt oft fyrirtæki eins og t.d. hljómplötuframleiðendur, en upphaflegur höfundaréttur tilheyrir hins vegar einstaklingum. Ef litið er á höfundinn annars vegar og flytjendur og framleiðendur hins vegar verður að fallast á það sjónarmið að allir réttindahóparnir gegna oft á tíðum í raun jafn mikilvægu hlutverki í endanlegri útfærslu verksins. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt fyrir höfundinn að flytjandinn túlki verk hans á sem bestan hátt. Fjárhagslega skiptir einnig miklu máli fyrir alla aðila að t.d. hljómplatan sé markaðsett af framleiðanda sem hafi til þess bæði fjárhagslega getu, kunnáttu og færni til að dreifa plötunni með þeim hætti að sem flest eintök seljist. Ef óþekktur höfundur semdi t.d lag og texta og hljóðritaði síðan og gæfi sjálfur út væri ljóst að stór spurning væri um árangur. Ef tónlistarmenn á borð við Madonnu, Björk eða Celine Dion hljóðrituðu lög hans á plötu væri fullvíst að mun fleiri myndu kaupa tónverk hans en ella. Hér er hlutverk listflytjandans tvímælalaust mun veigameira en tónhöfundarins og hljómplötuframleiðandans. Þetta er einkennandi fyrir stöðu vinsælla popplistamanna nú á tímum. Vinsældir og sölutölur tónverkanna byggjast oftast nær á vinsældum flytjendanna, hvort sem um söngvara eða hljómsveitir er að ræða, fremur en vinsældum tónhöfundarins. Hins vegar semur flytjandinn oft sína eigin tónlist. Þá reynir einnig á hæfileika hljómplötuframleiðandans og fyrirtækja tengdum honum að markaðssetja óþekktan listamann. Af þessum sökum er þáttur hvers um sig þ.e. tónhöfundarins, flytjandans og framleiðandans oft órjúfanlegar hluti af einni samstæðri heild “pars pro toto”.

Að margra mati ætti ekki að aðgreina réttindi flytjenda og framleiðenda frá réttindum höfunda. Samkvæmt þeirri skilgreiningu ættu að vera til ein sameiginleg réttindi höfunda, framleiðenda og flytjenda undir sama nafni. Nota þyrfti þá annað nafn en höfundarréttur , en benda má t.d. á að það orð sem almennt er notað um höfundarétt í alþjóðlegum samningum er “copyright”eða í íslenskri þýðingu réttur til eintakagerðar og er ekkert fremur tengt hinum upprunalega höfundi en flytjendum og framleiðendum.

1.2. Rómarsáttmálinn frá 1961.

Þegar Rómarsáttmálinn var samþykktur árið 1961 var það gert í kjölfar víðtækra umræðna, sem áttu sér stað varðandi réttmæti þess að veita réttindahópunum þrem vernd á réttindum sínum. Voru þar einkum höfundar sem höfðu af því áhyggjur að réttindi þeirra til endurgjalds fyrir verk sín myndu minnka, þar sem notendur yrðu að greiða þremur réttindahópum í stað eins áður. Hér er um að ræða svonefnda kökukenningu “the cake theory” sem byggist á því að um sé að ræða eina köku af ákveðinni stærð fyrir alla rétthafa höfundaréttar og grannréttar og fái rétthafar grannréttinda hluta af henni minnki að skapi hlutur höfunda af kökunni. Áhyggjur þessar hafa reynst tilhæfulausar þar sem komið hefur fram að réttindi höfunda hafa þvert á móti vaxið og fjárhagsleg verðmæti höfunda einnig stóraukist í heild. Framleiðendur og flytjendur hafa haldið því fram að þessir þrír hópar gætu í sameiningu bakað stærri köku og þar með öðlast frekari réttindi ef þeir stæðu saman frekar en í aðgreindum fylkingum.

Þegar ákveðið var að réttindi flytjenda, framleiðenda og útvarpsstöðva yrðu tryggð í alþjóðlegum sáttmála varð að leysa úr þremur spurningum. Hver er hinn eiginlegi rétthafi? Hvert er umfang réttarins? Og hver er verndartími hans?

1.2.1. Rétthafar.

Varðandi fyrstu spurninguna eru réttindin yfirleitt alfarið í höndum félaga eða fyrirtækja hvað varðar hljómplötuframleiðendur og útvarpsstofnanir. Hvað varðar flytjendur er ávallt um einstaklinga að ræða, hvort sem um er að ræða einn einstakling (einsöngvara, píanóleikara o.s.frv.) eða fleiri (sinfóníuhljómsveit, kór, lúðrasveit, jasshljómsveit eða popphljómsveit). Hugtökin listflytjandi og hljómplötuframleiðandi eru skilgreind í Rómarsáttmálanum frá 1961 og WIPO sáttmálanum um flutning og hljóðritanir sem undirritaður var í Genf 20. desember 1996. Rómarsáttmálinn var birtur á bls. 16 í C-deild Stjórnartíðinda nr.2/ 1995. Skilgreiningin á listflytjanda og hljómplötuframleiðanda kemur fram í 3. grein samningsins.Orðrétt hljóðar skilgreiningin á hljómpötuframleiðanda (“producer of phonograms”.) þannig: “the person who, or the legal entity which, first fixes the sounds of a performance or other sounds.” Bent hefur verið á að t.d. geta útvarpsstöðvar fallið undir skilgreininguna hér að framan og teljast þar með hljómplötuframleiðandi í skilningi Rómarsáttmálans. Sjá í þessu sambandi umfjöllun um þetta í ritinu “The Guide to the Rome Convention”, sem WIPO gaf út árið 1981.

1.2.2. Umfang réttarins.

Varðandi aðra spurninguna er umfang réttar höfundarins sjálfs mjög víðtækt, þar sem um er að ræða samsafn réttinda, sem auk réttar til eintakagerðar geta byggst á aðlögunarrétti, birtingarrétti hvers konar, sæmdarrétti og kvikmyndarétti. Grannréttindi snúast hins vegar aðallega um þrjá flokka réttinda, rétt til eintakagerðar, birtingarrétt (flutnings- og dreifingarrétt) og þóknunarrétt auk sæmdarréttar listflytjandans.

1.2.3. Verndartími.

Varðandi þriðju spurninguna er verndartíminn yfirleitt lengri hjá höfundum eða 70 ár eins og staðfest var með höfundalögum síðast í lögum nr. 145 / 1996 á Íslandi og 50 ár varðandi flytjendur og framleiðendur, en sá réttur var staðfestur með lögum nr. 57 / 1992.

2.0. Réttur flytjenda.

2.1. Staða á alþjóðlegum vettvangi.

Staða flytjenda skoðuð í alþjóðlegu samhengi er nokkuð mótsagnarkennd. Þrátt fyrir að réttindi þeirra séu líkust réttindum höfunda af öllum grannréttindum hefur réttarstaða þeirra hins vegar verið veikust á alþjóðlegum vettvangi af réttindahópunum þrem.

Ýmsar ástæður kunna að liggja að baki þessug, en nefna má hér tvær hugsanlegar skýringar á því, hvers vegna réttarstaða flytjenda var lakari en hinna hópanna.

Hin fyrsta byggist á félagslegum skýringum. Á leikara og hljóðfæraleikara var litið sem lítils metna þjóðfélagsþegna á mótunarskeiði höfundaréttar og stóðu þeir yfirleitt fyrir utan heldri manna samfélag. Í bók sinni “Auðævi þjóðanna” taldi Adam Smith leikara, tónlistarmenn og dansara klassískt dæmi um stéttir, sem ynnu óarðbæra vinnu. Þetta viðhorf hefur sem betur fer breyst á síðari tímum og frá því að vera neðarlega í þjóðfélgasstiganum hafa nú þeir bestu komist til hæstu metorða og jafnvel orðið valdamiklar fyrirmyndir í þjóðfélaginu.

Síðari skýringin byggist á þeirri skoðun að listflutningur hyrfi jafnskjótt og hann væri opinberaður andstætt listsköpun höfundarins sem væri mun varanlegri. Adam Smith lýsti flutningi framangreindra flytjenda á þennan hátt: “The work of all of them perishes in the instant of its production”. Þetta var hárrétt á þeim tímum.

Þessi skoðun á hins vegar ekki lengur rétt á sér, þegar tækninýjungar eins og hljómplatan, kvikmyndin, útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar og fjölmiðlun hvers konar eru komnar til sögunnar, því þá varð kleift að hljóðrita flutning og fjölfalda í stóru upplagi með heimild rétthafahópanna þriggja þ.e. höfunda, flytjenda og framleiðenda. Í þessu fólst fjöföldunarrétturinn. Hljóðritið var síðan flutt fyrir stóran áheyrendahóp annaðhvort með útvarpssendingum eða öðrum hljómflutningtækjum t.d. fyrir viðskipatavini veitingahúsa, verslana og fleiri staða. Í þessu felst hins vegar hin eiginlegi flutningsréttur.

Einn veigamesti þáttur í réttindum höfunda, flytjenda og framleiðenda er einkaréttur þeirra til eintakagerðar og birtingar, sem þó er háður ýmsum undantekningum. Sífellt erfiðara er að stjórna honum, þegar stöðugt koma fram nýjar leiðir til þess að dreifa og flytja hin vernduðu verk með ýmsum tækninýjungum í því upplýsingaþjóðfélagi sem við lifum í. Þetta er erfiðasta vandamálið í dag sem rétthafar höfunda- og grannréttinda eiga við að glíma.

Enginn er þó þeirrar skoðunar í dag að höfundar, flytjendur og framleiðendur eigi að hafa ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir verkum sínum. Þegar verk flyst frá einkaumhverfi hins eiginlega höfundar er verkið birt opinberlega og almennt er fallist á ákveðinn umráðarétt höfundarins yfir verkum sínum, en slík umráð eða slíkt ákvörðunarvald varðandi notkun verksins mega þó ekki vera svo víðtæk að það raski mikilvægum þjóðfélagshagsmunum.

2.2. Ákvæði íslenskra höfundalaga um flytjendur.

Ákvæði Rómarsáttmálans um vernd listflytjenda, framleiðenda og útvarpsstöðva voru að meginhluta grundvöllur efnisákvæða V. kafla laganna um réttindi þessara þriggja réttindahópa. Frá árinu 1972 þegar höfundalögin voru samþykkt á Alþingi hafa ýmsar breytingar orðið á lögunum, þ.e. með lögum nr.78/1984, lögum nr.57/1992 og þær síðustu voru samþykktar á Alþingi þann 27. desember 1996 með lögum nr. 145/1996.

2.2.1. Hugtakið listflytjandi og listflutningur.

Varðandi skilgreiningu á listflytjendum er ekki að finna neina slíka skilgreiningu í íslenskum lögum, en byggja verður á skilgreiningu 3. greinar Rómarsáttmálans hvað séu listflytjendur, en þeir eru taldir vera leikarar, söngvarar, hljóðfæraleikarar, dansarar og aðrir sem leika á leiksviði, syngja, lesa upp, segja fram, taka þátt í eða flytja með öðrum hætti verk sem tilheyra bókmenntum eða listum. Mjög svipuð skilgreining er á listflytjanda í WIPO sáttmálanum um listflutning og hljóðritanir, sem undirritaður var í Genf þann 20. desember 1996. Bætt er þó við orðinu túlka og niðurlagið er …eða flytja með öðrum hætti verk sem tilheyra bókmenntum og listum eða byggjast á þjóðlegum háttum.

Listflutningur lisflytjandans nýtur verndar samkvæmt 45. gr. höfundalaganna. Til verndaðs listflutnings telst t.d. ekki uppfærsla sirkusfólks svo sem loftfimleikafólks, trúða, slöngutemjara o.fl.. Ennfremur falla íþróttamenn ekki undir þá skilgreiningu að kallast lisflytjendur svo sem fimleikafólk, eða listdansarar á skautum eða sýningardansarar almennt. Sumir hafa þó viljað ganga lengra eins og t.d. meiri hluti dönsku höfundaréttarnefndarinnar 1995 sem vildi að þær íþróttagreinar nytu verndar þar sem “det æstetiske(fagurfræðilegu) moment spiller en afgörende rolle for helhedsoplevelsen” Á þessi rök var ekki fallist af löggjafarvaldinu.

Um skilgreiningu á hver fellur undir hugtakið listflytjandi má benda á umfjöllun um það efni í frumvarpi með dönsku höfundalögunum frá 1961, en sá telst listflytjandi sem túlkar eða endurupplifir bókmennta- eða listaverk. Slík krafa um svonefnda flutningshæð verður hins vegar ekki gerð almennt til flutningsins. Hins vegar verður flutningurinn samkvæmt eðli máls að hafa yfir sér listrænt yfirbragð. Undir þá skilgreiningu fellur t.d. ekki upplestur frétta eða fyrirlestur. Hins vegar mundi upplestur í útvarpi á leikriti, skáldsögum og smásögum falla undir vernd enda eðli flutningsins mun listrænna.

Með sama hætti falla t.d. ekki statistar í kvikmyndum eða tæknimenn í leikritum undir hugtakið listflytjandi.

Aftur á móti hefur verið talið að undir skilgreiningu um listflytjanda falli bæði leikstjórar á leiksviði (U 1978.42H), tónlistarstjórar í hljóðveri (producent) og stjórnendur stórra hljómsveita.

2.2.2. Lög nr. 145/1996 um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972.

Breytingar þær sem gerðar voru á lögum um höfundarrétt með lögum nr. 145/1996 voru m.a. til þess að auka rétt listflytjenda. Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skuldbatt Ísland sig til þess að aðlaga löggjöf landsins að hinu almenna verndarstigi hugverka í Evrópusambandslöndunum. Í þessu sambandi er vísað til 65. greinar samningsins, sbr. viðauka nr. XVII, bókun 28. Í 3.tl. 1. gr. bókunarinnar segir orðrétt: “Munu EFTA ríkin samkvæmt beiðni og að höfðu samráði við samningsaðila aðlaga löggjöf sína um hugverk til þess að ná að minnsta kosti því almenna stigi í verndun hugverka sem er í Evrópubandalaginu við undirritun þessa samnings.” Allt frá árinu 1984 hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýnt mikinn áhuga á framangreindri samræmningu innan markaðssvæðisins og lagt fram ýmsar tillögur að tilskipunum á þessu sviði sem auk samræmingar miða að háu verndarstigi hugverka.

Fyrir gildistöku síðustu breytingar höfundalaganna höfðu fjórar tilskipanir ráðsins á sviði höfundaréttar verið samþykktar, þ.e. um vernd tölvuforrita frá 14. maí 1991 (´91/250/EBE), um leigu- og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti frá 19. nóvember 1992 (´92/100/EBE), um samræmingu á tilteknum reglum varðandi útsendingar um kapal og gervihnetti frá 27. september 1993 (´93/83/EBE) og að lokum um lengd verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarétti frá 29. október 1993 (´93/98/EBE).

Þær tilskipanir sem fjalla m.a. um grannréttindum eru tilskipanirnar um verndartíma og tilskipunin um leigu- og útlánarétt og kapal- og gervihnattatilskipunin (satcap) grannréttindum, þ.e. réttindum flytjenda og framleiðenda. Í tilskipun ráðsins um leigu- og útlánarétt og hliðstæð réttindi er aðalreglan sú að kveða skuli á í lögum um rétt til að heimila eða banna leigu eða útlán verka, sem njóta höfundaréttar eða hliðstæðra réttinda (grannréttar). Það sem skilur milli leigu og útlána samkvæmt tilskipuninni er hvort verkinu er ráðstafað í þeim tilgangi að hagnast á því fjárhagslega, beint eða óbeint. Hvað varðar rétt til leigu kveður tilskipunin á um það að höfundur eða annar rétthafi eigi rétt til endurgjalds fyrir leigu og þann rétt sé ekki hægt að takmarka með samningum.

Með tilskipuninni er verndarstig á listflutningi hækkað, þar sem listflytjendum er veittur einkaréttur til flutnings í útvarpi og annarrar dreifingar á listflutningi til almennings. Listflytjendum og framleiðendum er með tilskipuninni veittur réttur til dreifingar á upptökum, þ.e. einkaréttur til að gera upptökur aðgengilegar fyrir almenning með sölu eða á annan hátt. Listflytjendur og framleiðendur öðlast þannig rétt til að krefjast einstaklingsbundinnar þóknunar vegna dreifingar efnis af hljóðritum til almennings með flutningi í útvarpi eða með öðrum hætti. Kapal- og gervihnattatilskipunin krefst ekki breytinga á ákvæðum um grenndarrétt í íslenskri höfundalöggjöf nema að því er varðar endurvarp um kapal, en slíkt endurvarp er því aðeins heimilt að verki sé endurvarpað óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu. Ennfremur er það skilyrði endurvarps að til staðar séu samningar milli einstaklinga eða samtaka handhafa grannréttinda annars vegar og dreifenda efnis um kapal hins vegar. Að lokum er ákvæðum fyrri laga um allsherjarinnheimtustofnun breytt á þann veg að dreifingaraðilar semji við lögformlega viðurkennd samtök rétthafa hver á sínu sviði.

Með tilskipun ráðsins um samræmingu reglna um verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda er gert ráð fyrir umtalsverðri lengingu verndartíma höfunda eða úr 50 árum frá næstu áramótum eftir lát höfundar í 70 ár. Að því er varðar listflytjendur og framleiðendur gerir tilskipunin ráð fyrir 50 ára verndartíma, en hliðstæð ákvæði voru lögfest hér á landi með lögum nr. 57/1992. Tilskipunin gerir þó ráð fyrir þeirri breytingu frá áðurgildandi lögum að sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skuli verndin haldast í 50 ár frá fyrstu dreifingu hennar. Hér getur verið um verulegan verndarauka að ræða varðandi upptöku listflutnings. Listflutningur er t.d hljóðritaður árið 1990 en ekki gefinn út fyrr en árið 2010. Hér lengist verndartíminn um 20 ár. Sjá t.d. umfjöllun Peter Schönning um þetta í Ophavsretsloven med kommentarer á bls. 501.

Hér á eftir verður nokkuð vikið að ákvæðum um vernd listflytjenda en þau koma fram í 45. grein laganna. Sú tækniþróun sem hefur orðið á síðari tímum með myndbandagerð, gervihnattasendingum, kapalsendingum, stafrænni tækni, margmiðlun hvers konar með internetinu, gefur listflytjandanum ný tækifæri til þess að dreifa flutningi sínum, en á sama hátt fækkar tækifærum hans til beins flutnings. Má í þessu sambandi benda á rökstuðning fyrir vernd listflytjenda sem kemur fram í greinagerð með dönsku höfundalögunum frá 1961, en þær röksemdir eiga enn við í dag:” den stigende brug af mekanisk musik og af anden udövende kunst (i radio og fjernsyn) mindsker de udövende kunstners arbejdsmugligheder og vanskeliggör en tilfredsstillende rekruttering, særlig til musikerfaget.”

Af þeim sökum er nauðsynlegt að höfundaréttarlöggjöf hvers lands sé sem fullkomnust til að veita listflytjandanum réttarvernd sem gerir honum kleift að fylgjast með hvernig flutningi hans og hljóðritunum er dreift. Einnig er rétt að benda á að fjölföldunartækninni hefur mjög fleygt fram og eru gæði fjöfaldaðs eintaks nú jafngóð og frumeintaksins svo sem þekkist á hvers kyns stafrænum böndum og öðrum stafrænum formum. Vernd listflytjenda var m.a. aukin við síðustu breytingar á höfundalöggjöfinni 1996 til þess að koma til móts við ofangreind sjónarmið. Verndarstig íslensku höfundalaganna er hvað varðar flyjendur (og hljómplötuframleiðendur) mun hærra heldur en ákvæði Rómarsáttmálans gera ráð fyrir.

2.2.3. Ákvæði 45. greinar höfundalaga um réttindi flytjenda.

Réttur flytjenda byggist að meginstefnu á rétti til eintakagerðar, dreifingarrétti(flutnings- og dreifingarrétti), rétti til þóknunarrétti og sæmdarrétti Eins og fram kemur í athugasemdum um 45. grein með frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum sem urðu að lögum nr. 147/1996 hefur listflytjandi einkarétt til eintakagerðar og einkarétt til dreifingar listflutnings til almennings, þó þannig að listflytjendur hafa aðeins þóknunarrétt þegar um er að ræða flutning af hljóðritum skv. 47. grein.

2.2.3.1. Einkaréttur til eintakagerðar og birtingar (flutnings-og dreifingarréttur) og undanþágur frá honum.

Réttur til eintakagerðar.

Að meginstefnu hafa flytjendur sama einkarétt til að gera eintök af verki sínu (eintakaréttur) og höfundar hafa sbr. 3. grein höfundalaga. Undantekningar eru þó á þessum einkarétti svipað og hjá höfundum, en hér er átt við ákvæði II kafla Höfundalaganna um takmarkanir á höfundarétti. Einkum má þar nefna heimild til eintakagerðar til einkanota sbr. 11. grein, þar sem sérstakt gjald er ákveðið vegna einkanotaupptakna á hljóð-eða myndbönd sbr. 2. mgr. sömu greinar og heimild til gerðar eintaka af tölvuforriti sbr. 11.grein a.

Samkvæmt 3. mgr. 2. greinar höfundalaga telst verk birt þegar það er með réttri heimild flutt (flutningsréttur) eða sýnt opinberlega (sýningarréttur) eða eintök af því hafa verið gefin út (dreifingarréttur).

Dreifingarréttur. Skilgreiningar á því hvenær verki sé dreift eða það gefið út er að finna í 2. mgr. 2. greinar og hvenær verk telst birt er að finna í 3. 4. og 5. mgr. 2. greinar laganna. Verk telst skv. 2. mgr. gefið út, þegar eintök af því eru með réttri heimild og í álitsverðum fjölda boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim dreift til almennings með öðrum hætti.

Undantekning frá þessum einkarétti höfunda til dreifingar er að finna í 24. grein. Þar segir orðrétt: “Heimil er sala, lán, leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum bókmenntaverks eða tónverks sem út hefur verið gefið.” Það er almennt viðurkennt í höfundarétti að eigandi að bók eða hljómplötu, sem hann hefur keypt í verslun eigi að hafa sömu eignarheimildir að þessum hlutum, sem hverjum öðrum efnislegum hlut, enda virði hann sem aðrir einkarétt höfundar til eintakagerðar og opinbers flutnings á verkinu.

Hér er um að ræða svokallaða alheimstæmingu (international eða global konsumption) á dreifingarrétti höfunda til hins efnislega eintaks verksins.

Þessi undantekning á dreifingarréttinum gildir einnig um kvikmyndaverk og myndbönd sbr. 2. mgr. 24. greinar, hins vegar nær einkaréttur höfundarins eftir sem áður ótakmarkað til útleigu og láns á eintökum tónverka sbr. 2.ml. 2 mgr. sömu greinar.

Einkaréttur flytjenda og framleiðenda nær einnig til útleigu og láns á eintökum tónverka sbr. 2. ml. 1. mgr. 24. greinar, en þar kemur eins og áður segir fram að útleiga og lán þeirra sé óheimil án samþykkis rétthafa (höfundar, flytjendur og framleiðendur).

Einkaréttur flytjenda (og hljómplötuframleiðenda) er hér víðtækari en réttur höfunda þar sem í niðurlagi 3. mgr. 45. gr. kemur fram, að framangreind 1. mgr. 24. greinar gildir aðeins um upptökur, sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hér er um að ræða svonefnda svæðisbunda tæmingu á dreifingarétti flytjenda. Ef t.d hljómplata er fyrst seld í Evrópu með samningi við flytjanda eða framleiðanda, er dreifingaréttur hans tæmdur, en sé platan fyrst gefin út í Búlgaríu og flutt inn til Evrópu án samþykkis flytjanda eða framleiðanda, geta þeir stöðvað þann innflutning sbr. einnig refsiákvæði 5. tl. 54. greinar. Hér gildir því einkaréttur flytjenda og hljómplötuframleiðenda til dreifingar gagnvart t.d. hljómplötum, sem fluttar eru inn frá Búlgaríu.

Varðandi kvikmyndaverk, þar sem réttur kvikmyndaframleiðans er mikill sbr. t.d. 41. gr. höfl., gildir sú regla sbr. 2. mgr. 45 .gr. að listflytjandi getur ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverks. Hér er um svonefnda löglíkindareglu að ræða. Reglan felur í sér eins og kunnugt er að löglíkur séu fyrir því að kvikmyndaframleiðandum hafi verið framselt mikilvægustu réttindin frá rétthöfum til þess að geta ráðstafað kvikmyndaverkinu.

Flutningsréttur. Skilgreining á því hvenær verk telst flutt er eins og áður segir að finna í 2. 3. 4.og 5.mgr. 2. greinar. Í fyrsta lagi telst það birting þegar flytjandinn syngur eða leikur opinberlega sbr. 2. mgr. og nefnist þá beinn flutningur. Í öðru lagi telst það sjálfstæð opinber birting eða óbeinn flutningur þegar útvarpsflutningi á tónlist er dreift til almennings með hátalara eða á annan hátt sbr. 3. mgr. 2. greinar. Í þriðja lagi telst það opinber birting ef t.d. tónverk er flutt beint eða óbeint á vinnustað þar sem 10 menn eða fleiri vinna. sbr. 4. mgr. 2. greinar. Í fjórða lagi nær flutningur í útvarpi bæði til flutnings í hljóðvarpi og sjónvarpi. 5. mgr. 2.greinar.

Undantekningar frá einkarétti til flutnings varðandi flytjendur er að finna í 47. grein höfundalaga, sem fjallar um þóknunarrétt í stað einkaréttar, þegar hljóðrit er flutt í útvarpi eða dreift opinberlega á annan hátt. Hér er um svonefnda afnotakvöð (compulsory licence eða tvangslicens) að ræða, þ.e. listflytjandi er skuldbundinn að heimila notkun notenda, útvarpsstöðva eða skemmtistaða á hljóðriti gegn þóknun fyrir afnotin. Sameiginleg innheimtusamtök flytjenda og framleiðenda SFH innheimtir gjaldið eins og síðar verður nánar vikið að. Notandinn þarf ekki að vera samningsbundinn SFH áður en hann notar hljóðritið (markaðshljóðritið) í útvarpi eða á opinberum stöðum utan þess. Hins vegar getur hann ekki dregið samninga endalaust sbr. 3. mgr. 47. greinar, sem veitir úrskurðarnefnd skv. 57. grein rétt til að stöðva notkun verndaðra markaðshljóðrita, ef ágreiningur verður um gjaldið og útvarpsstöðin setur ekki viðhítandi tryggingar. Hér er réttur höfunda sterkari, þar sem útvarpstöðvar þurfa að semja við samtök tónhöfunda, STEF áður en heimild fæst til útsendingar verka. Rætt er um að í þessu tilviki sé um svonefnda samningskvöð að ræða þ.e. skyldu notanda til að semja áður en til notkunar kemur. Sé tónverki hins vegar endurvarpað úr útvarpi til almennings um kapalkerfi þarf að semja við innheimtusamtök flytjenda og framleiðenda, SFH áður en endurvarp á sér stað, svo sem áður er vikið að. Hér er um samningskvöð að ræða í stað afnotakvaðar, sem áður gilti skv. l nr. 57/1992. Var breyting þessi gerð til þess að fullnægja ákvæðum tilskipunar Evrópuráðs um höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal (93/83/EBE) frá 27.september 1993.

Þessi einkaréttur hefur tvær hliðar annars vegar “neikvæður” einkaréttur og hins vegar “jákvæður” einkaréttur. Hin neikvæða hlið hans felur í sér að listflytjandinn getur bannað öðrum notkun á listflutningi sínum með eintakagerð eða dreifingu hans til almennings að frátaldri opinberri spilun hljóðrita í útvarpi og eða annarri opinberri dreifingu. Hin jákvæða hlið einkaréttarins byggist á því að listflytjandinn getur ráðstafað einkarétti sínum á hvern þann hátt sem hann óskar, hvort sem hann gerir það að öllu leyti eða að hluta. Hann getur með öðrum orðum ráðið hvort hann heimili öðrum afnot af flutningi sínum, við hvern hann semur og fyrir hvaða verð hann heimili notkunina. Hér má taka sem dæmi vinsælan popphljómlistarmann. Hann ákveður sjálfur að hann vilji flytja lög á hljómplötu, gerir plötusamning við þann hljómplötuframleiðanda sem hann kýs, framselur öll þau réttindi sem hann kýs og semur um það verð sem hann telur ásættanlegt t.d. með fyrirframgreiðslu og ágóðahlut.

Varðandi flytjendur gildir því að meginstefnu sama regla um aðilaskipti og gildir varðandi höfunda sbr. 27. grein höfundalaga en þar segir orðrétt:” Framsal höfundarréttar að nokkru eða öllu leyti er heimilt með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 4. gr.” En 4. greinin fjallar sem kunnugt um tilgreiningarrétt á nafni flytjanda við opinberan flutning og sæmdarrétt hans þ.e. ef verki eða flutningi þess er breytt eða það birt með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti flytjendaheiður hans eða höfundasérkenni.

Ennfremur kemur fram í 2. mgr. 28. gr. að framsalshafa t.d. hljómplötufyrirtæki er óheimilt að framselja öðrum höfundaréttindi án samþykkis höfundar. Ef rétturinn er hins vegar þáttur í eigum fyrirtækis, má þó framselja hann ásamt því eða tilteknum greinum þess. Hér gæti flytjandi t.d. þurft að sætta sig við skerðingu á þessum rétti sínum með því að þriðji aðili t.d. annað hljómplötufyrirtæki eignaðist með framsali rétt til útgáfu á lögum hans.

Undantekning frá þessum einkarétti til flutnings er að finna í 47. gr. höfundalaga þ.e. þegar hljómplatan er komin út og hún síðan leikin í útvarpi eða á opinberum stöðum utan þess. Þá koma til skjalanna sameiginleg innheimtusamtök flytjenda og framleiðenda, sem semja fyrir hönd rétthafahópanna tveggja við notendur þ.e. útvarpsstöðvarnar um endurgjald fyrir notkun hljóðritanna og innheimta sérstakt gjald fyrir sömu not samkvæmt gjaldskrá, sem samþykkt er af menntamálaráðuneytinu. Hér er meðferð þóknunarréttarins tekinn með lagaákvæði úr höndum flytjenda og þessi réttindi framseld innheimtusamtökum.

Hinn neikvæði einkaréttur Hinn svonefndi ”neikvæði” einkaréttur kemur fram í eftirtalinni upptalningu úr 1.mgr. 45. greinar höfundalaga og felur í sér þann við tilteknum aðgerðum sem brýtur gegn einkarétti flytjandans.

Eftirtaldar aðgerðir eru óheimilar án samþykkis lisflytjandans samkvæmt 45.grein höfundalaga: * 1.tl. Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi Listflytjandi hefur eins og áður hefur komið fram einkarétt til eintakagerðar þ. á m að framkvæma eða leyfa öðrum upptöku á beinum listflutningi sínum, hvort heldur er með hljómum eða myndum. * 2.tl. Útvarp á beinum listflutningi, sjá þó hljómplötur sbr. undantekningu 47.greinar. * 3.tl. Dreifing beins listflutnings frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða.Hér er átt við dreifingu með tækniaðferðum frá flutningsstað án þess að vera útvarpssending. * 4.tl. Eftirgerð á upptökum listflutnings (uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram). * Dreifing á upptöku til almennings (uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram.) * Beinn listflutningur. (Samkvæmt skilgreiningu í 1.tl. 1.mgr. 45. gr höfundalaga er beinn listflutningur skilgreindur á eftirfarandi hátt: ”Það telst beinn listfluningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp.” Eins og fram kemur í athugasemdum í greinargerð með fyrsta frumvarpi til höfundalaga, sem varð að lögum nr. 73/1972 er átt við frumflutninginn .Þar kemur einnig fram að sú útvarpssending sem fram fer samkvæmt bráðabirgða upptöku útvarpsstofnunar sé þá látin jafngilda beinum listfluningi.)

Dönsk ákvæði. Annað orðalag er að finna í dönsku höfundalögunum, en 1.mgr. 65. greinar þeirra laga hljóðar svo: “En udövende kunstners fremförelse af et litterært eller kunstnerisk værk må ikke uden kunstnerens samtykke *1) optages på bånd, film eller anden indretning, der kan gengive den, eller *2) göres tilgængelig for almenheden.”

2.2.3.2. Önnur réttindi flytjenda í 45.grein.

2.1. Framsal réttinda í kvikmyndaverkum (löglíkur).

2.2. Tilvísun til annarra ákvæða í höfundalögum.a

 • 2.2.1. 2-6.mgr. 2.gr. Skilgreining á birtingu/flutningi.
 • 2.2.2. 4.gr. Nafngreining - sæmdarréttur. (Sænskur dómur - sæmdarréttur brotinn á leikkonu- ástarsena með “statista” í stað leikkonu.)
 • 2.2.3. 7.gr. Fleiri höfundar- samhöfundar./samflytjendur.
 • 2.2.4. 8.gr. Höfundur (flytjandi)telst sá sem nafngreindur er.
 • 2.2.5. 1.mgr. 11.gr. Takmarkanir höfundaréttar - Einkanot heimil.
 • 2.2.6. 1.mgr. 14.gr. Takmarkanir höfundaréttar - Tilvitnun í tónverk heimil, ef það er gert v. gagnrýni, vísinda, almennrar kynningar eða í viðurkenndum tilgangi.
 • 2.2.7. 3. mgr. 15.gr. Takmarkanir höf.réttar- Flutningur þáttur dægurviðburðar í útvarpi.
 • 2.2.8. 18.gr. Takmarkanir höf.réttar - Upptaka til bráðabirgðanota við kennslu.
 • 2.2.9. 21. gr. Takmarkanir höf.réttar Útgefinn tónflutningur í fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, í skólum og í félögum og við guðþjónustur.
 • 2.2.10. 2.mgr. 23.gr. Takmarkanir höf.réttar Flutningsheimild útvarpsstöðva nær aðeins til smærri verka. Gildir ekki um leiksviðsverk.
 • 2.2.11. 24.gr. Takmarkanir höf.réttar – Sala,lán leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum úgefinna tónverka (+bókmenntaverka) heimil. Úteiga og lán óheimil. Ef fyrsta sala hljómplötu Rómarsáttmálarétthafa fer fram í Bandaríkjunum tæmir það ekki dreifingarrétt gagnvart flytjanda og hljómplötuframleiðanda viðkomandi verks í Evrópu og er innflutningur og sala í Evrópu því óheimil.
 • 2.2.12. 26.gr. Takmarkanir höf. réttar- Tilgreining heimildar við birtingu verka og óheimilar breytingar án samþ. höf. nema í lögmætum tilgangi.
 • 2.2.13. 27.-31.gr. III. kafli um aðilaskipti að höfundarétti.
 • 2.2.14. 3.mgr. 41.gr.(sbr.9.gr. l. 60/2000) Hæfileg þóknun fyrir útleigu kvikmyndaverks. (óafsalanlegt gjald vegna útleigu kvikmyndaverks)
 • 2.2.15. 53. gr. Sæmdarréttur gildir fyrir verk sem ekki eru háð höfundarétti.

2.3. Reglan um 12 listflytjendur (sbr.12.gr. l.57/1992).

Stéttarfélag viðkomandi flytjenda hefur heimild til að samþykkja eftirgerð og endurnot flunings hafi fleiri en 12 listflytjendur staðið saman að listfluningi. Ekkert sambærilegt ákvæði í norrænni höfundarréttarlöggjöf. Héraðsdómur í máli FÍH gegn Þjóðleikhúsinu frá 16.2. 2001 er fyrsti dómur þar sem málsaðild er byggð á þessu ákvæði. Staðfest brot á 4.tl. 1.mgr. 45.gr. höfundalaga. Skaðabætur.Miskabótum hafnað.

2.4. Kapalkerfi - 25 íbúða reglan.

Endurvarp um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærlægum húsum, er þó heimilt án leyfis eða endurgjalds til rétthafa samkvæmt grein 45.a höfundalaga

2.5. Verndartími.

Verndartími flytjenda er 50 ár frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram eins og rakið hefur verið hér að framan er greint var frá aðlögun íslenskrar löggjafar við Evróputilskipun frá 29.október 1993 um samræmingu reglna um verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarétti(93/98/EBE).

3.0. Réttindi hljómplötuframleiðenda.

Réttindi hljómplötuframleiðenda byggjast einkum á rétti til eintakagerðar, rétti til birtingar (flutninhgs og dreifingar) og rétti til þóknunar fyrir notkun verka sinna. Hér er því um sams konar réttindi og flytjendur hafa og flest það sem sagt hefur verið um flytjendur á við um hljómplötuframleiðendur að undanskildum sæmdarréttinum eins og áður hefur komið fram.

Samkvæmt 3. grein Rómarsáttmálans telst framleiðandi hljóðrits sá einstaklingur eða lögaðili, sem framkvæmir fyrstu hljóðupptöku listflutnings eða annarra hljóma. Í WIPO sáttmálanum um listflytjendur og hljómplötuframleiðendur frá 20. desember 1996 er skilgreiningin orðin nokkuð rýmri, en þar er hljómplötuframleiðandi talinn einstaklingur eða lögaðili, sem hefur frumkvæði og er ábyrgur fyrir fyrstu hljóðupptöku listflutnings eða annarra hljóma eða kynninga á hljómum.

Samkvæmt 46. grein höfundalaga eru eftirfarandi ráðstafanir á mynd- og hljóðritunum óheimilar án samþykkis framleiðanda:

2.1. Óheimil eftirgerð mynd- og hljóðrita.

2.2. Óheimil hvers kyns dreifing til almennings.

2.3. Verndartími:

 • a) Frumupptöku: 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd.
 • b) Dreifingar: 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu

2.4. Tilvísun til annarra ákvæða í höfundalögum

 • a) 2-6. mgr. 2.gr. Skilgreining á birtingu/flutningi.
 • b) 7.gr. Fleiri en einn höfundur/hljómplötuframleiðandi.
 • c) 8.gr. Höfundur/hljómplötuframleiðandi sá sem nafngreindur er.
 • d) 1.mgr. 11.gr. Takmarkanir höfundaréttar - Einkanot heimil
 • e) 1.mgr.14. gr. Takmarkanir höfundarréttar - Tilvitnun í tónverk heimil, ef það er gert v. gagnrýni, vísinda, almennrar kynningar eða í viðurkenndum tilgangi.
 • f) 3. mgr. 15. gr. Takmarkanir höfundaréttar-Flutningur þáttur í dægurviðburðar í útvarpi
 • g) 18.gr. Takmarkanir höf.réttar - Upptaka til bráðabirgðanota við kennslu.
 • h) 2. mgr. 32. gr. Heimild til opinbers flutnings um óákv. tíma stytt í 3 ár.
 • i) 1. og 2. mgr. 24. gr. Takmarkanir höf.réttar – Sala,lán leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum úgefinna tónverka (+bókmenntaverka) heimil
 • Úteiga og lán óheimil.
 • Ef fyrsta sala hljómplötu Rómarsáttmálarétthafa fer fram í Bandaríkjunum tæmir það ekki dreifingarrétt gagnvart flytjanda og hljómplötuframleiðanda viðkomandi verks í Evrópu og er innflutningur og sala í Evrópu því óheimil

4.0. 47. grein höfundalaga.

 1. grein íslensku höfundalaganna er að meginstefnu byggð á 12. grein Rómarsáttmálans um vernd listflytjenda, framleiðenda og fl. frá 1961. Greinin fjallar um þóknunarrétt til handa flytjendum og framleiðendum vegna flutnings markaðshljóðrita í hljóðvarpi, sjónvarpi og á öðrum opinberum stöðum þar fyrir utan, svo sem í veitingahúsum, verslunum, flugvélum, skemmtistöðum, skipum og öðrum opinberum stöðum þar sem tónlist er leikin af hljómplötum beint eða óbeint, þ.e. úr útvarpi. 12. grein Rómarsáttmálans hljóðar svo: “Nú er hljóðrit sem gefið hefur verið út í viðskiptaskyni eða eftirgerð slíks hljóðrits notað beint til útvarpssendingar eða annarrar miðlunar til almennings og skal notandi þá greiða sanngjarna þóknun í einu lagi til listflytjenda eða til framleiðenda hljóðritsins eða þeirra beggja. Heimilt er að setja skilmála um skiptingu þóknunarinnar milli aðilanna í innlendum lögum, enda hafa þeir ekki sjálfir samið um hana sín á milli.” Í alþjóðlegum sáttmála WIPO um flutning og hljóðrit sem samþykktur var í Genf 20. desember 1996 eru ákvæði 12. greinarinnar endurbætt nokkkuð. Þar segir í 15. grein sáttmálans: “1. Performers and producers of phonograms shall enjoy the right to a single equittable remuneration for the direct or indirect use of phonograms published for commercial purposes, for broadcasting or for any communication to the public. 2. Contracting parties may establish in their national legislation that the single equittable remuneration shall be claimed from the user by the performer or by the producer of a phonogram or both.”

1.mgr. 47. greinar hljóðar svo: “Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið notað á því tímabili, sem í 46. gr. getur, til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.” Með orðunum útvarp er eins og áður segir að sjálfsögðu einnig átt við sjónvarp samanber 6. mgr. 2. gr. höfundalaga. Hér er ekki einungis átt við hinar venjubundnu útsendingar hljóðvarps og sjónvarps frá jarðstöð, heldur einnig einnig gervihnattarsendingar, hvort sem um er að ræða beint til neytenda eða í gegnum dreifingaraðila, sem dreifir efninu með þræði eða þráðlaust. Um kapalsendingar gilda sér reglur sbr. 23. grein höfundalaganna, en þar er gert ráð fyrir því að semja þurfi við rétthafa áður en til útsendinga kemur.

Önnur opinber dreifing skv. 47. grein er eins og áður hefur fram komið flutningur hljómplatna á atvinnustöðum, skemmtistöðum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, hársnyrtistofum o.s.frv. Í þessu skiptir ekki máli hvort hjómplatan eða annað hljóðrit er leikið beint á staðnum, eða útvarpstónlist af hljóðritum er dreift þar með hátalara. Sérstök regla gildir um afnot á atvinnustöðum sbr. 5. mgr. 2. gr. höfundalaga, þar sem segir að það teljist opinber birting þegar verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri. Þessi regla er rýmri um afnot á öðrum stöðum svo sem skemmtistöðum, veitingahúsum, hársnyrtistofum, líkamsræktarstöðum og víðar, þar sem tónlist er dreift í þágu viðskiptamanna. Varðandi innheimtu þessa endurgjalds var í upphafi stuðst við það að sérstöku hátalarakerfi hefði verið komið fyrir til dreifingar á tónlistinni. Með aukinni tækni hafa hljómflutningstækin hins vegar orðið öflugri og því ekki að öllu leyti hægt að byggja á þessar reglu, þar sem tónlist getur heyrst um heilan vinnustað frá litlu hljómflutningtæki.

Orðin “að greiða framleiðanda þess og listflytjendum sameiginlega þóknun fyrir afnotin” eru augljóslega tekin úr 12. grein Rómarsáttmálans, þar sem talað er um “a single equittable remuneration”, sem greiða eigi flytjendum og fra