Brot úr sögu SFH

SFH var stofnað hinn 3. mars 1973, að undangengnum undirbúningsstofnfundi hinn 9. desember 1972, á grundvelli hinna nýju höfundalaga frá sama ári. Samkvæmt 2.mgr. 47.gr. hinna nýju höfundalaga er að finna heimild til stofnunar ,,sameiginlegra félagssamtaka framleiðenda og listflytjenda" til gæslu þeirra réttinda sem í lagagreininni felast.

Þessir fulltrúar listflytjenda og hljómplötuframleiðenda voru mættir á fundinn. Fyrir hljómplötuframleiðendur: Haraldur Ólafsson, Helgi Hjálmsson, Ólafur Haraldsson, Svavar Gests og Sveinn Guðmundsson. Fyrir Félag íslenskra organleikara: Gústaf Jóhannesson Fyrir félag íslenskra einsöngvara: Þuríður Pálsdóttir Fyrir félag íslenskra leikara: Guðmundur Jónsson og Klemenz Jónsson Fyrir Samband íslenskra karlakóra: Ragnar Ingólfsson og Þorsteinn Helgason Fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna: Einar B. Waage og Sverrir Garðarsson Fyrir Félag íslenskra tónlistarmanna: Gísli Magnússon og Ólafur Vignir Albertsson. Fyrir Sambands íslenskra lúðrasveita: Pétur Björnsson

Þá mætti á stofnfundinn Sigurður Reynir Pétursson, sem samið hafði drög að samþykktum fyrir sambandið. Voru drög þessi síðan samþykkt með smávægilegum breytingum.

Í fyrstu stjórn sambandsins voru tilnefndir af aðildarfélögunum þessir menn: Frá Félagi ísl. hljómlistarmanna: Sverrir Garðarsson, til vara Einar B. Waage Frá Félagi ísl. leikara: Guðmundur Jónsson, til vara Þuríður Pálsdóttir Frá Félagi ísl. tónlistarmanna: Ólafur Vignir Albertsson, til vara Gísli Magnússon Frá Sambandi ísl. karlakóra: Ragnar Ingólfsson, til vara Þorsteinn Helgason. Frá Íslandsdeild Alþjóðasambands hljómplötuframleiðenda: Haraldur V. Ólafsson, Svavar Gests, Jón Ármansson og Helgi Hjálmsson. Til vara Ólafur Haraldsson, Árni Ragnarsson, Pálmi Stefánsson og Sveinn Guðmundsson.

Fyrsti formaður var kosinn Haraldur V. Ólafsson og varaformaður Sverrir Garðarsson. Þeim Þórði Eyjólfssyni, Sigurði Reyni Péturssyni og Knúti Hallssyni var þakkað fyrir mikil og óeigingjörn störf að réttindamálum flytjenda og hljómplötuframleiðenda. Loks var samþykkt að stofna sjóð sem bera skyldi nafnið ,,Menningarsjóður Haraldar V. Ólafssonar".

Fyrsti stjórnarfundur samtakanna var haldinn að Laufásvegi 40 hinn 28.mars 1973. Var þar kjörið framkvæmdaráð skipað þeim Sverri Garðarssyni og Haraldi V. Ólafssyni, með heimild til samninga við STEF um húsnæðisaðstöðu, svo og til kaupa á húsgögnum o.fl. Þá var samþykkt tillaga Haraldar Ólafssonar um ráðningu Sigurðar Reynis Péturssonar sem lögmanns félagsins, en hann er síðan skipaður framkvæmdastjóri sambandsins hinn 26. mars 1975 og gengdi því starfi allar götur fram til ársins 1993 er núverandi framkvæmdastjóri, Gunnar Guðmundsson, tók við framkvæmdastjórn sambandsins.