Samþykktir

Samþykktir fyrir Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda.

1.gr.
Samtökin heita Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, skammstafað SFH. Heimili sambandsins og varnarþing er á Seltjarnarnesi.

2.gr.
Megintilgangur sambandsins er að semja um, innheimta, annast umsýslu og úthluta endurgjaldi til listflytjenda og hljómplötuframleiðenda þegar hljóðritum þeirra er útvarpað eða þau flutt opinberlega á Íslandi, sbr. 47. grein höfundalaga nr. 73/1972. Sambandið getur einnig innheimt, annast umsýslu og úthlutað annars konar endurgjaldi sem tilheyrir framangreindum rétthafahópum. Hið sama á einnig við um fjármuni sem koma í hlut sömu rétthafahópa þar sem einstaklingsbundinni úthlutun verður ekki við komið. Sambandið er ekki rekið í hagnaðarskyni og hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að innheimta framangreind gjöld samkvæmt höfundalögum, en sambandinu er m.a. heimilt að setja sér gjaldskrár fyrir opinberan flutning tónlistar á hvers konar hljóðritum sem háðar eru staðfestingu sama ráðuneytis. Sambandið gætir einnig sömu réttinda erlendis í samræmi við samninga við hliðstæð erlend innheimtusamtök og innheimtuaðila og gætir einnig hagsmuna fyrir jafnt erlenda sem innlenda rétthafa sem ekki eru aðilar að neinum rétthafasamtökum sem aðild eiga að SFH. Sambandið getur framkvæmt hvað eina sem lýtur að hagsmunagæslu vegna áðurnefndra réttinda, m.a. með tillögugerð til stjórnvalda um bætt réttindi og málshöfðanir til gæslu og verndar hagsmunum þessum.

3.gr.
Rétt til fullrar aðildar að sambandinu eiga þau samtök flytjenda og framleiðenda sem hér greinir: a) Félag hljómplötuframleiðenda (FHF) b) Eftirtalin samtök listflytjenda: Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félag íslenskra leikara (FÍL), Félag íslenskra tónlistarmanna (FÍT) og Samband íslenskra karlakóra (SÍK). Þau önnur félög listflytjenda sem nú eiga aðild að samtökunum halda óbreyttum réttindum hvað aðild varðar. Önnur innlend félög listflytjenda geta sótt um aukaaðild eða fulla aðild að samtökunum enda teljast þau að mati stjórnar hafa verulegra hagsmuna að gæta á þessu sviði. Á sama hátt geta erlendir rétthafar á evrópska efnahagssvæðinu sótt um aðild að samtökunum hvort sem um aukaaðild eða fulla aðild er að ræða enda teljast þau að mati stórnar uppfylla skilyrði til inngöngu. Aðalfundur tekur fullnaðarákvörðun um inngöngubeiðni. Stjórn félags, sem veitt er aðild að sambandinu, skal rita undir skuldbindingu um að félagið sem sambandsfélag skuldbindi sig til að hlíta samþykktum og reglum sambandsins í öllum greinum, eins og þær eru eða kunna að verða. Aðalfundur getur vikið félagi úr sambandinu eftir tillögum sambandsstjórnar ef það fullnægir ekki lengur skilyrðum til inngöngu í sambandið.

4.gr.
Stjórn sambandsins skipa sex einstaklingar og jafnmargir til vara. Félög íslenskr a hljómlistarmanna, tilnefnir tvo fulltrúa í stjórnina og tvo til vara. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara. Félag hljómplötuframleiðenda tilnefnir á sama hátt þrjá fulltrúa í stjórnina og þrjá til vara. Kjörtími stjórnar eru tvö ár. Stjórnendur má endurkjósa. Flytjendur og hljómplötuframleiðendur skiptast á tveggja ára fresti um formennsku og varaformennsku í sambandsstjórninni og skal formaður og varaformaður ávallt vera úr sitt hvorum réttindahópnum. Aðalfundarfulltrúar hvers réttindahóps um sig kjósa á aðalfundi sambandsins formann eða varaformann til að gegna starfinu út kjörtímabilið. Að öðru leyti en að framan segir skipta stjórnarmenn með sér verkefnum. Aðalfundur ákveður laun formanns, annarra stjórnarmanna, svo og endurskoðanda og skoðunarmanns.

5.gr.
Stjórn sambandsins heldur fundi svo oft sem formanni þykir þurfa eða þremur stjórnarmönnum. Fundur telst lögmætur er meirihluti stjórnar mætir og þar af tveir úr hvorum rétthafahópi. Á stjórnarfundum um sameiginleg málefni ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Séu atkvæði jöfn vegna hagsmunaágreinings hinna tveggja réttindahópa, þ.e. framleiðenda og flytjenda, má krefjast þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið skipi aukamann í stjórnina ad hoc, og ræður atkvæði hans úrslitum. Stjórnin heldur gerðabók. Undirskrift formanns og varaformanns er bindandi fyrir sambandið. Þó þarf undirskrift allra stjórnarmanna þegar um er að ræða sölu eða veðsetningar á eignum sambandsins og varðandi aðrar meiri háttar ráðstafanir.

6.gr.
Stjórn sambandsins er æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda og annast á þeim tíma umsjón með rekstri þess. Hún semur við útvarps- og sjónvarpsstöðvar og setur gjaldskrá fyrir aðra gjaldskylda aðila og ákveður reglur um úthlutun. Stjórn sambandsins boðar til sambandsfunda og undirbýr þá, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda, ýmist sjálf eða felur þau öðrum samkvæmt samþykktum þessum. Hún leggur fyrir aðalfund endurskoðaða reikninga sambandsins fyrir næsta ár á undan, hefur umsjón með fjárreiðum þess og eignum og gætir hagsmuna þess í öllum greinum.

7.gr.
Stjórn sambandsins skal ráða framkvæmdastjóra til sambandsins, lögmann, svo og annað starfsfólk til að annast innheimtu, fjárreiður og daglegan rekstur þess. Formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri skipa framkvæmdastjórn sambandsins sem annast daglegan rekstur þess milli aðalfunda.

8.gr.
Skv. heimild í 3. mgr. 47. gr. höfundalaga sbr. reglugerð frá 21. júlí 1973, skulu gjöld öll, sem innheimtast skv. 2. gr. samþykkta þessara renna að frádregnum kostnaði sambandsins, í sérstakan sjóð, sem er í höndum sambandsstjórnar. Sjóðurinn starfar í tveimur deildum, annarri fyrir listflytjendur og hinni fyrir framleiðendur, og skal fé sem rennur til sjóðsins skipt að jöfnu á milli deildanna. Sambandsstjórnarmenn flytjenda stjórna flytjendadeild sjóðsins og stjórnarmenn framleiðenda framleiðendadeild hans. Afl atkvæða ræður á fundum deildarstjórna, en séu atkvæði jöfn ræður réttindamagn að baki stjórnarmönnum úrslitum máls. Úr framleiðendadeild sjóðsins skal úthluta til einstakra framleiðenda, hvort sem þeir eru innan eða utan FHF, í samræmi við flutningstíma hljóðrita. Úr listflytjendadeild sjóðsins skal úthluta framlögum til sambandsfélaganna í samræmi við heildarhagsmuni hvers félags skv. útreikningi byggðum á flutningstíma, innbyrðis skiptingu milli flytjenda og flytjendahópa, er fleiri en ein flytjendaeining stendur að einum og sama listflutningi. Um úthlutanir úr sjóðnum vegna hagsmuna listflytjenda, sem standa utan sambandsfélaganna, skal fara eftir úthlutunarreglum SFH. Úthlutun úr sjóðnum fer fram að minnsta kosti einu sinni á ári. Kostnað við úthlutunarútreikning og aðra úthlutunarvinnu greiðir hvor sjóðdeild um sig. Sambandsstjórn setur nánari reglur um úthlutun úr sjóðnum og úthlutunarnefndir og skulu þær staðfestar af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Stjórn hvorrar sjóðdeildar um sig hefur úrskurðarvald um réttmæti útreiknings á réttindamagni. Þeim úrskurði má þó áfrýja til nefndar þriggja manna, er mennta- og menningarmálaráðuneytið velur í því skyni. Hvor rétthafahópur getur ákveðið að hluti af innheimtum tekjum sem ekki verður með sanngirni úthlutað á grundvelli flutningstíma megi ráðstafa til sameiginlegra verkefna innan viðkomandi rétthafahóps.

9.gr.
Starfsár sambandsins og reikningsár er almanaksárið. Reikningar þess skulu afhentir til stjórnar endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagskjörnum endurskoðanda tveimur vikum fyrir aðalfund

10.gr.
Aðalfund skal halda fyrir 1. júní ár hvert. Skal til hans boðað á sannanlegan hátt með bréfi eða rafrænum tölvupósti sem senda skal eigi síðar en tveimur vikum fyrir fund. Aðra fundi skal boða með minnst viku fyrirvara. Aukafundi skal halda, þegar sambandsstjórn ákveður eða þegar aðilar sem fara með meirihluta réttinda í hvorum réttindahópi krefjast þess.

11.gr.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál: a. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra. b. Ársreikningar. c. Kosning formanns og varaformanns sambandsstjórnar. d. Kosning löggilts endurskoðanda og eins félagskjörins skoðunarmanns. e. Stjórnarlaun. f. Önnur mál.

12.gr.
Aðgang að aðalfundum sambandsins eiga allir sem eiga aðild að samtökunum á grundvelli 3. greinar þessara samþykkta og eru annars vegar framleiðendur innan Félags hljómplötuframleiðenda og hins vegar á hvert aðildarfélag flytjenda rétt til að senda einn atkvæðisbæran fulltrúa til aðalfundar og annan til áheyrnar. Atkvæði á fundum eru greidd innan hvers réttindahóps um sig og getur hvorugur hópurinn borið hinn atkvæðum. Hver framleiðandi og hvert aðildarfélag flytjenda hefur atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við réttindamagn. sbr. 8. gr. Gildir hver fullnuð hundraðstala (prósenta) af heildarréttindamagni sem eitt atkvæði. Enginn einn aðili getur þó farið með meira en 40 atkvæði.

13.gr.
Samþykktunum verður aðeins breytt á aðalfundi. Breytingar skulu því aðeins gerðar að aðilar sem fara með meira en helming atkvæða í hvorum réttindahóp um sig séu mættir á fundi og breytingin samþykkt með 2/3 atkvæða í hvorum hóp. Fullnægi fundarsókn eigi skilyrðum 2. mgr. þessarar gr. skal boða til nýs fundar innan mánaðar með tveggja vikna fyrirvara. Sé á þeim fundi greidd 3/4 atkvæða með samþykktabreytingunni, úr hvorum réttindahópi, telst hún löglega samþykkt, óháð mætingu á fundinn. Leita skal staðfestingar mennta- og menningarmálaráðuneytis á breytingum samþykkta.

14.gr.
Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda verður ekki lagt niður nema um það sé gerð samþykkt á fundi í sambandinu skv. reglum sem greindar eru í 13. gr. Skal þá sá fundur ráðstafa eignum sambandsins og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir er að félagsslitum lúta.