Grannréttindi höfundarréttar

1.0. Forsaga grannréttinda.

1.1. Grannréttindi nutu ekki verndar í upphafi.

Saga höfundaréttar felur í sér þróun samfara aukinni tæknivæðingu. Höfundaréttur snýst um það hvað teljist til verka, sem njóta þurfi verndar þegar verkin birtast almenningi.

Í upphafi var það uppfinning prentlistarinnar sem var grundvöllur fyrir höfundarréttarlega vernd. Vernd á prentuðu efni var nauðsynleg gagnvart heimildarlausri eintakagerð á því sem út hafði verið gefið á prenti. Þar næst snerist verndin um rétt þýðenda (nú nefnt aðlögunarréttur) yfir bókmenntaverkum, sem út höfðu verið gefin. Allt fram á miðja 19. öld var prentlistin eina tæknilega leiðin til að birta almeningi bókmenntaverk.

Ef um var að ræða leikverk eða tónverk var leiðin til almennings beinn flutningur á viðkomandi verki. Í tilvikum annarra listrænna verka voru það sýningar. Á seinni hluta 19. aldar komu til sögunnar nýjar tækniaðferðir til dreifingar listflutnings svo sem ljósmyndir, hljóðritanir og gerð þögulla kvikmynda. Á 20. öldinni komu til skjalanna kvikmyndir með hljóði, útvarp, sjónvarp og nýjar leiðir svo sem stafræn tækni og margmiðlun hvers konar m.a. með gagnvirkri notkun á netinu með tölvum, snjallsímun eða öðum tækjum, sem gera slíkt keift. Með þessum nýju notum breyttist svið höfundaréttarins algerlega.

Tvö vandamál komu þá upp, í fyrsta lagi varð að ákveða hvaða rétt höfundar ættu gagnvart þessari nýju notkun á verkum þeirra og í öðru lagi varð að ákveða hvort þessi nýju verk þyrftu að njóta sérstakrar verndar samkvæmt höfundarétti. Það var fljótt ljóst í byrjun 20. aldar að ljósmyndir, kvikmyndir og hljóðritanir þyrftu á höfundarréttarlegri vernd að halda. Aðalvandamálið snerist um það, hver væri hinn upphaflegi rétthafi höfundarréttar, hvert umfang réttarins væri og hversu lengi hann ætti að gilda.

Þegar hljóðritanir komu fram á sjónarsviðið komu ýmsar spurningar upp í sambandi við rétthafa. Hvernig átti að skilgreina listamennina, sem fluttu verkið og upptökustjóra og hljóðblandara í hljóðverum, sem tóku lokaákvörðun með listamanninum um hvernig frá verkinu skyldi gengið. Átti að skilgreina þá sem meðhöfunda að verkinu eða átti að finna nýja skilgreiningu? Hin alþjóðlega niðurstaða var sú að réttur þessara aðila væri ekki höfundaréttur heldur réttur, sem tengdist rétti höfundar þ.e.a.s. hliðstæð réttindi eða grannréttur (á ítölsku: Diritti Conessi) ( á þýsku: Verwandte Schutzrechte) ( á frönsku: Droits Voisins) ( á ensku: Neighbouring rights).

Grannréttindi byggjast nær ávallt á meðhöndlun á þegar sömdum verkum. Listflytjendur njóta því einungis verndar ef þeir flytja verk samkvæmt skilgreiningu höfundalaga. Hér fellur t.d. ekki undir flutningur fjölleikafólks í fjölleikahúsi (trúðar, sjónhverfingamenn, loftfimleikamenn) og t.d. sýning fimleikafólks og skautaíþróttamanna. Í Danmörku kom hins vegar fram tillaga meiri hluta höfundarréttarnefndar árið 1994 um að vernda flutning fjölleikafólks og látbragðsleikara. Ennfremur að vernda listflytjendur gegn því að líkt væri eftir flutningi þeirra. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga, enda hefði þá Danmörk verið eitt fárra landa í heiminum með slíka réttarvernd. Hljómplötur og streymi hafa nær ávallt haft að geyma hljóðritanir á verkum í höfundarréttarlegum skilningi (fuglasöngur t.d. og umhverfishljóð falla þar ekki undir) en samkvæmt íslenskum höfundalögum er það hins vegar ekki skilyrði fyrir vernd hljóðrita að þau geymi listflutning eins og fram kemur í athugasemdum um 46. grein frumvarps til höfundalaga sem lagt var fram á Alþingi og varð að lögum árið 1972. Útvarp byggist að miklu leyti á flutningi á verkum sem njóta verndar í höfundarréttarlegum skilningi. Þar eru þó undanskildar t.d. útsendingar frá íþróttaviðburðum, ýmsar opinberar tilkynningar og þess háttar.

Breyting á upprunalegu höfundaverki telst aðlögun og nýtur verndar samkvæmt 5. grein höfundalaga. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um höfundarétt, sem lagt var fram á Alþingi á 92. löggjafarþingi 1971-1972 kemur fram í umfjöllun um þá grein, að í höfundalöggjöf sumra landa hafi listflutningur, t.d. söngvara, hljóðfæraleikara, leiksviðsleikara o.fl., verið talin aðlögun á verki því sem flutt var. Þetta sjónarmið hefur þó ekki hlotið almenna viðurkenningu og eftir setningu alþjóðasáttmála um vernd listflytjenda o.fl. í Róm 1961 mun þetta vera úr sögunni. Enn síður getur upptaka tónverks á hljómplötur talist til aðlögunar á verkinu, þó að svo hafi verið talið í dönsku höfundalögunum frá 1933, en frá því hafði verið horfið í hinum dönsku höfundalögum frá 1961.

Einkenni á grannréttindum eru, að yfirleitt eiga þar margir hlut að máli og þá jafnframt oft fyrirtæki eins og t.d. hljómplötuframleiðendur, en upphaflegur höfundaréttur tilheyrir hins vegar einstaklingum. Ef litið er á rétthafahópana þrjá þ.e. höfundinn annars vegar og flytjendur og framleiðendur hins vegar verður að fallast á það sjónarmið að allir hóparnir gegna oft á tíðum í raun jafn mikilvægu hlutverki í endanlegri útfærslu verksins. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt fyrir höfundinn að flytjandinn túlki verk hans á sem bestan hátt. Fjárhagslega skiptir einnig miklu máli fyrir alla aðila að t.d. hljóðritið sé markaðsett af framleiðanda sem hafi til þess bæði fjárhagslega getu, kunnáttu og færni til að dreifa hljóðritinu með þeim hætti að sem flest eintök seljist. Ef óþekktur höfundur semdi t.d lag og texta og hljóðritaði síðan og gæfi sjálfur út væri ljóst að stór spurning væri um árangur. Ef heimsfrægir tónlistarmenn hljóðrituðu lög hans og markaðssettu væri fullvíst að mun fleiri myndu kaupa tónverk hans en ella. Hér er hlutverk listflytjandans tvímælalaust mun veigameira en tónhöfundarins og hljómplötuframleiðandans. Þetta er einkennandi fyrir stöðu vinsælla popplistamanna nú á tímum. Vinsældir og sölutölur tónverkanna byggjast oftast nær á vinsældum flytjendanna, hvort sem um söngvara eða hljómsveitir er að ræða, fremur en vinsældum tónhöfundarins. Hins vegar semur flytjandinn oft sína eigin tónlist. Þá reynir einnig á hæfileika framleiðandans og fyrirtækja tengdum honum að markaðssetja óþekktan listamann. Af þessum sökum er þáttur hvers um sig þ.e. tónhöfundarins, flytjandans og framleiðandans oft órjúfanlegur hluti af einni samstæðri heild sem á latínu heitir “pars pro toto”. Nú er það oft þannig að sami einstklingurinn ser sá sem semur, flytur og hlóðritar tónverkið og kemur því síðan á framfæri gagnvart almenningi, eða markaðssetur það með öðrum orðum.

Að margra mati ætti ekki að aðgreina réttindi flytjenda og framleiðenda frá réttindum höfunda. Samkvæmt þeirri skilgreiningu ættu að vera til ein sameiginleg réttindi höfunda, framleiðenda og flytjenda undir sama nafni. Nota þyrfti þá annað nafn en höfundaréttur, en benda má t.d. á að það orð sem almennt er notað um höfundarétt í alþjóðlegum samningum er “copyright” eða í íslenskri þýðingu réttur til eintakagerðar og er ekkert fremur tengt hinum upprunalega höfundi en flytjendum og framleiðendum.

1.2. Rómarsáttmálinn frá 1961.

Þegar Rómarsáttmálinn um vernd listflytjenda, framleiðenda hjóðrita og útvarpsstofnana var undirritaður af aðildarríkjum árið 1961 var það gert í kjölfar víðtækra umræðna, sem höfðu átt sér stað varðandi réttmæti þess að veita réttindahópunum þrem vernd á réttindum sínum. Voru þar einkum höfundar sem höfðu af því áhyggjur að réttindi þeirra til endurgjalds fyrir verk sín myndu minnka, þar sem notendur yrðu að greiða þremur réttindahópum í stað eins áður. Hér er um að ræða svonefnda kökukenningu “the cake theory” sem byggist á því að um sé að ræða eina köku af ákveðinni stærð fyrir alla rétthafa höfundaréttar og grannréttar og fái rétthafar grannréttinda hluta af henni minnki að sama skapi hlutur höfunda af kökunni. Áhyggjur þessar hafa reynst óþarfar þar sem réttindi höfunda hafa þvert á móti vaxið og fjárhagsleg verðmæti þeirra stóraukist. Framleiðendur og flytjendur hafa frá upphafi haldið því fram að þessir þrír hópar gætu í sameiningu bakað stærri köku og þar með öðlast frekari réttindi ef þeir stæðu saman frekar en í aðgreindum fylkingum.

Þegar ákveðið var að réttindi flytjenda, framleiðenda og útvarpsstöðva yrðu tryggð í alþjóðlegum sáttmála varð að leysa úr þremur spurningum. Hver er hinn eiginlegi rétthafi? Hvert er umfang réttarins? Og hver er verndartími hans?

1.2.1. Rétthafar.

Varðandi fyrstu spurninguna eru réttindin yfirleitt alfarið í höndum félaga eða fyrirtækja hvað varðar hljómplötuframleiðendur og útvarpsstofnanir. Hvað varðar flytjendur er ávallt um einstaklinga að ræða, hvort sem um er að ræða einn einstakling (einsöngvara, píanóleikara o.s.frv.) eða fleiri (sinfóníuhljómsveit, kór, lúðrasveit, jasshljómsveit eða popphljómsveit). Hugtökin listflytjandi og hljómplötuframleiðandi eru skilgreind í Rómarsáttmálanum frá 1961 og WIPO sáttmálanum um vernd listflutnings og hljóðritana sem undirritaður var í Genf þann 20. desember 1996. Rómarsáttmálinn var birtur á bls. 16 í C-deild Stjórnartíðinda nr. 2/1995. Skilgreiningin á listflytjanda og hljómplötuframleiðanda kemur fram í 3. grein samningsins. Orðrétt hljóðar skilgreiningin á hljómpötuframleiðanda (“producer of phonograms”) þannig: “the person who, or the legal entity which, first fixes the sounds of a performance or other sounds.” Bent hefur verið á að t.d. geta útvarpsstöðvar fallið undir skilgreininguna hér að framan og teljast þar með hljómplötuframleiðandi í skilningi Rómarsáttmálans. Sjá í þessu sambandi umfjöllun um þetta í ritinu “The Guide to the Rome Convention”, sem WIPO gaf út árið 1981.

1.2.2. Umfang réttarins.

Varðandi aðra spurninguna er umfang réttar höfundarins sjálfs mjög víðtækt, þar sem um er að ræða samsafn réttinda, sem auk réttar til eintakagerðar geta byggst á aðlögunarrétti, birtingarrétti hvers konar, sæmdarrétti og kvikmyndarétti. Grannréttindi snúast hins vegar aðallega um fjóra flokka réttinda, þ.e. rétt til eintakagerðar, birtingarrétt (flutnings- og dreifingarrétt) og þóknunarrétt auk sæmdarréttar listflytjandans.

1.2.3. Verndartími.

Varðandi þriðju spurninguna er verndartíminn yfirleitt lengri hjá höfundum eða 70 ár frá láti höfundar eða þess höfundar sem lengst lifir sbr 1. mgr. 43. greinar höfundalaga.

Um listflytjendur gilda ákvæði 3. mgr. 45. greinar höfundalaga, en þar kemur fram að sé hljóðrit listflutnings gefið út eða gert aðgengilegt almenningi varir verndin uns 70 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, annars vegar lok útgáfuárs eða hins vegar þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.

Um framleiðendur tónlistar gildir 2. ml. 1. mgr. 46. gr. höfundalaga, sem segir að sé upptöku dreift til almennings skal vernd þó haldast í 70 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.

2.0. Réttur flytjenda.

2.1. Staða á alþjóðlegum vettvangi.

Staða flytjenda skoðuð í alþjóðlegu samhengi er nokkuð mótsagnakennd. Þrátt fyrir að réttindi þeirra séu líkust réttindum höfunda af öllum grannréttindum var réttarstaða þeirra í byrjun hins vegar ekki sterk á alþjóðlegum vettvangi af réttindahópunum þremur.

Ýmsar ástæður kunna að liggja að baki þessu, en nefna má hér tvær hugsanlegar skýringar á því, hvers vegna réttarstaða flytjenda var lakari en hinna hópanna.

Hin fyrsta byggist á félagslegum skýringum. Á leikara og hljóðfæraleikara var litið sem lítils metna þjóðfélagsþegna á mótunarskeiði höfundaréttar og stóðu þeir yfirleitt fyrir utan heldri manna samfélag. Í bók sinni “Auðlegð þjóðanna” sem út kom árið 1776 og var fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun viðskipta og iðnaðar í Evrópu, taldi Adam Smith leikara, tónlistarmenn og dansara klassískt dæmi um stéttir, sem ynnu óarðbæra vinnu. Þetta viðhorf hefur sem betur fer breyst á síðari tímum og frá því að vera neðarlega í þjóðfélgasstiganum hafa nú þeir bestu komist til hæstu metorða og jafnvel orðið valdamiklar fyrirmyndir í þjóðfélaginu.

Síðari skýringin byggist á þeirri skoðun að listflutningur hyrfi jafnskjótt og hann væri opinberaður andstætt listsköpun höfundarins sem væri mun varanlegri. Adam Smith lýsti flutningi framangreindra flytjenda á þennan hátt: “The work of all of them perishes in the instant of its production”. Hugsanlega fundust á þeim tíma einhverjir sem voru sammála honum.

Nú er væntanlega enginn sama sinnis og því hafa valdið örar tækninýjungar á borð við hljómplötur, kvikmyndir, útvarps- og sjónvarpsþætti og stafræna margmiðlun hvers konar. Þá var gert kleift að hljóðrita flutning og fjölfalda í mörgum eintökum efni sem verndar nýtur samkvæmt höfundalögum með heimild rétthafahópanna þriggja þ.e. höfunda, flytjenda og framleiðenda. Í þessu fólst yfirleitt rétturinn til eintakagerðar. Hljóðritið var síðan flutt fyrir stóran áheyrendahóp annaðhvort með útvarpssendingum eða öðrum hljómflutningstækjum t.d. fyrir viðskipatavini veitingahúsa, verslana og fleiri staða. Í þessu felst hins vegar hin eiginlegi flutningsréttur. Einn veigamesti þáttur í réttindum höfunda, flytjenda og framleiðenda er einkaréttur þeirra til eintakagerðar og birtingar, sem þó er háður ýmsum undantekningum. Sífellt erfiðara er að stjórna honum, þegar stöðugt koma fram nýjar leiðir til þess að dreifa og flytja hin vernduðu verk með ýmsum tækninýjungum í því upplýsingaþjóðfélagi sem við lifum í.

Enginn er þó þeirrar skoðunar í dag að höfundar, flytjendur og framleiðendur eigi að hafa ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir verkum sínum. Þegar verk flyst frá einkaumhverfi hins eiginlega höfundar er verkið birt opinberlega og almennt er fallist á ákveðinn umráðarétt höfundarins yfir verkum sínum, en slík umráð eða slíkt ákvörðunarvald varðandi notkun verksins mega þó ekki vera svo víðtæk að það raski mikilvægum þjóðfélagshagsmunum.

2.2. Ákvæði íslenskra höfundalaga.

Ákvæði Rómarsáttmálans frá 1961 um vernd listflytjenda, framleiðenda og útvarpsstöðva voru að meginhluta grundvöllur efnisákvæða V.kafla laganna um réttindi þessara þriggja réttindahópa. Frá árinu 1972 þegar höfundalögin voru samþykkt á Alþingi hafa alls 24 breytingar verið gerðar á lögunum, þær síðustu árið 2016. Flestar þessar breytingar hafa verið fólgnar í innleiðingu ákvæða tilskipana Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar.

2.2.1. Hugtakið listflytjandi og listflutningur.

Varðandi skilgreiningu á listflytjendum er ekki að finna neina slíka skilgreiningu í íslenskum lögum, en byggja verður á skilgreiningu 3. greinar Rómarsáttmálans hvað séu listflytjendur, en þeir eru taldir vera leikarar, söngvarar, hljóðfæraleikarar, dansarar og aðrir sem leika á leiksviði, syngja, lesa upp, segja fram, taka þátt í eða flytja með öðrum hætti verk sem tilheyra bókmenntum eða listum. Mjög svipuð skilgreining er á listflytjanda í WIPO sáttmálanum (Internetsáttmálanum) um vernd listflutnings og hljóðritana o.fl., sem undirritaður var í Genf þann 20. desember 1996. Bætt er þó við orðinu túlka og niðurlagið er …eða flytja með öðrum hætti verk sem tilheyra bókmenntum og listum eða hafa þjóðmenningarlegt gildi. Er hér verið að veita listflytjanda þjóðmenningarlegs efnis sama rétt og listflytjendum annarrar tegundar efnis. Þetta var staðfest efnislega árið 2006 og varð 7. mgr. 45. gr. höfundalaga

Listflutningur lisflytjandans nýtur verndar samkvæmt 45.gr. höfundalaganna. Til verndaðs listflutnings telst t.d. ekki uppfærsla sirkusfólks svo sem loftfimleikafólks, trúða, slöngutemjara o.fl.. Ennfremur falla íþróttamenn ekki undir þá skilgreiningu að kallast lisflytjendur svo sem fimleikafólk, eða listdansarar á skautum eða sýningardansarar almennt. Sumir hafa þó viljað ganga lengra eins og t.d. meiri hluti dönsku höfundaréttarnefndarinnar 1995 sem vildi að þær íþróttagreinar nytu verndar þar sem “det æstetiske (fagurfræðilega) moment spiller en afgörende rolle for helhedsoplevelsen”. Á þessi rök var ekki fallist af löggjafarvaldinu.

Um skilgreiningu á hver fellur undir hugtakið listflytjandi má benda á umfjöllun um það efni í frumvarpi með dönsku höfundalögunum frá 1961, en sá telst listflytjandi sem túlkar eða endurupplifir bókmennta- eða listaverk. Slík krafa um svonefnda verks-eða flutningshæð verður hins vegar ekki gerð almennt til flutningsins. Hins vegar verður flutningurinn samkvæmt eðli máls að hafa yfir sér listrænt yfirbragð. Undir þá skilgreiningu fellur t.d. ekki upplestur frétta eða fyrirlestur. Hins vegar mundi upplestur í útvarpi á leikriti, skáldsögum og smásögum falla undir vernd enda eðli flutningsins mun listrænna.

Með sama hætti falla t.d. ekki statistar í kvikmyndum eða tæknimenn í leikritum undir hugtakið listflytjandi.

Í Danmörku hefur aftur á móti verið talið að undir skilgreiningu um listflytjanda falli bæði leikstjórar á leiksviði (U1978.42H), tónlistarstjórar í hljóðveri (producent) og stjórnendur stórra hljómsveita.

2.2.2. Ákvæði 45. greinar höfundalaga um réttindi flytjenda.

Hér á eftir verður nokkuð vikið að ákvæðum um vernd listflytjenda en þau koma fram í 45. grein laganna. Sú tækniþróun sem hefur orðið á síðari tímum með myndbandagerð, gervihnattasendingum, kapalsendingum, stafrænni tækni í tölvum og snjallsímum og, hvers konar miðlun á efni á internetinu, hefur gefið listflytjandanum ný tækifæri til þess að dreifa flutningi sínum. Á sama hátt fækkar hins vegar tækifærum hans til beins flutnings. Má í þessu sambandi benda á rökstuðning fyrir vernd listflytjenda sem kemur fram í greinargerð með dönsku höfundalögunum frá 1961, en þær röksemdir eiga enn við í dag: ”den stigende brug af mekanisk musik og af anden udövende kunst (i radio og fjernsyn) mindsker de udövende kunstners arbejdsmugligheder og vanskeliggör en tilfredsstillende rekruttering, særlig til musikerfaget.”

Af þeim sökum er nauðsynlegt að höfundaréttarlöggjöf hvers lands sé sem fullkomnust til að veita listflytjandanum réttarvernd sem gerir honum kleift að fylgjast með hvernig flutningi hans og hljóðritunum er dreift. Einnig er rétt að benda á að fjölföldunartækninni hefur mjög fleygt fram og eru gæði fjöfaldaðs eintaks nú jafngóð og frumeintaksins svo sem þekkist á hvers kyns stafrænum formum.

Það er brýnt hagsmunamál allra rétthafa á sviði höfundar- og grannréttinda að sporna við því að hin nýja stafræna tækni til dreifingar hugverka sé notuð til óleyfilegrar hagnýtingar á efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Vernd þeirra réttinda er í raun lífsnauðsyn og meginskilyrði fyrir sköpunarkrafti þeirra og fjárfestingum ýmissa aðila í fyrirtækjum, sem koma á einhvern hátt að nýtingu verndaðra hugverka, svo sem á sviði útgáfu miðlunar eða hugbúnaðar

Ekki má heldur gleyma þeim þjóðhagslegu hagsmunum sem hér eru í húfi. Í nútímaþjóðfélögum eykst stöðugt þjóðhagslegt vægi vöru og þjónustu sem byggir á höfundarétti.

Réttur flytjenda byggist að meginstefnu á rétti til eintakagerðar, dreifingarrétti (flutnings- og dreifingarrétti), þóknunarrétti og sæmdarrétti. Eins og fram kemur í athugasemdum um 45. grein með frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum sem varð að lögum nr. 147/1996 hefur listflytjandi einkarétt til eintakagerðar og einkarétt til dreifingar listflutnings til almennings, þó þannig að listflytjendur hafa aðeins þóknunarrétt þegar um er að ræða flutning af hljóðritum skv. 47. grein.

2.2.2.1. Einkaréttur til eintakagerðar og til að gera verk aðgengileg almenningi (flutnings-og dreifingarréttur) og undanþágur frá honum.

Nýjar skilgreiningar á nokkrum hugtökum höfundaréttar komu fram með lögum nr. 9/2016.

Annar megintilgangur breytinga á höfundalögum þá var eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu: “að færa I. kafla höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (hér eftir kölluð tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu eða tilskipunin (e. InfoSoc Directive)).

Tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu hefur þegar verið innleidd að efni til með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006. Í því innleiðingarferli var ákveðið að hrófla ekki við hugtakanotkun í I. kafla laganna heldur láta slíkt bíða heildarendurskoð-unar höfundalaga. Í fyrsta kafla laganna er kveðið á um grundvallarinntak höfundaréttar, þ.e. einkarétt höfunda til að gera og birta eintök af verkum sínum.

Tilgangur tilskipunarinnar var að aðlaga þann einkarétt að upplýsingasamfélaginu sem byggist á stafrænni tækni. Einkaréttur höfunda á fjárhagslegri nýtingu verka sinna á að vera óháður tækniþróun. Hugtök höfundaréttar um eintakagerð og birtingu verka eins og þau eru skilgreind í gildandi lögum ná til nýtingar verka á stafrænum vettvangi. Hins vegar er talið nauðsynlegt og til skýringarauka að uppfæra orðalag og hugtaksskilgrein-ingar í I. kafla til samræmis við tilskipunina eins og gert hefur verið í öðrum norrænum ríkjum.” 

Réttur til eintakagerðar.
Samkvæmt 2. grein höfundalaga hafa því flytjendur jafnt og höfundar einkarétt til að gera eintök af verkum sínum og gera þau aðgengileg almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni.

Eintakagerð telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er.

Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins fellur t.d. undir þessa skilgreiningu gerð stafrænna afrita sem er tæknilega óhjákvæmileg ef miðla á verkum í tölvum, netkerfum og gagnasamskiptum um netið.

Í þessari sömu 2. grein segir: ”Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.”  Um þetta segir í athugasemdum með frumvarpinu: “Í þessu felst að til eintakagerðar telst ekki einungis eftirgerð, sem er sýnileg berum augum eins og t.d. prentun bóka og ljósritun þeirra, heldur einnig eftirgerðir á hljóðböndum, myndböndum og þess háttar hljóð- og myndmiðlum. Í slíkum tilvikum skynjar notandi ekki verkið fyrr en hljóð- eða myndrit er flutt í tæki til endurmiðlunar. Sama á við um eintök sem hlaðið er niður á tölvu eða gerð aðgengileg gegnum netið. Hugtakið endurmiðlun er notað um eintakagerð af framangreindu tagi og er það þýðing á hugtakinu „gengivelse“, sem notað er um sams konar eftirgerð í öðrum norrænum höfundalögum. Hugtakið var valið samkvæmt tillögu íslenskrar málstöðvar. Ekki er um nýmæli að ræða heldur er með breytingunni ætlað að skýra betur gildandi rétt og stuðla þannig að auknu gagnsæi laganna.” 

Undantekningar eru þó á þessum einkarétti svipað og hjá höfundum, en hér er átt við ákvæði II. kafla höfundalaganna um takmarkanir á höfundarétti. Einkum má þar nefna 3. mgr. 11. greinar höfundalaga þar sem fram kemur að rétthafar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna eftirgerðar til einkanota af efni þeirra, sem hefur verið útvarpað, gert aðgengileg almenningi á netinu eða hefur verið gefið út á hljóðriti eða myndriti.

Birtingarréttur-verk gert aðgengilegt almenningi
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. höfundalaga telst verk gert aðgengilegt almenningi þegar:

  1. eintök af því eru boðin til sölu, leigu eða láns eða er dreift til almennings á annan hátt, 
  2. eintök af því eru sýnd opinberlega, 
  3. verkið er flutt opinberlega.

Að gera verk aðgengilegt almenningi kemur hér í stað hugtaksins birting án þess að ætlunin sé að breyta inntaki réttarins. Í athugasemdnum með frumvarpinu segir “Birtingarréttur höfunda hefur samkvæmt norrænum höfundarétti verið talinn fela í sér þrennt, þ.e. rétt til opinbers flutnings, rétt til opinberrar sýningar eintaks og rétt til dreifingar eintaks.” Eins og sést eru íslensku höfundalögin algjörlega með sama móti sniðin. 

En hvenær telst verk flutt opinberlega?

Skilgreiningu á því er að finna í 4. mgr. 2. greinar höfundalaga, en þar segir: Það telst vera opinber flutningur í skilningi 3. tölul. 3. mgr. þegar: 

  1. verki er miðlað til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi eða gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem
    hann sjálfur kýs.
  2. verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur. Í athugasemdum með fumvarpinu kemur fram að hér sé um orðalagsbreytingu frá gildandi lögum að ræða. Segir síðan orðrétt:”Þar er sérstaklega tiltekið að um sé að ræða opinbera birtingu þegar verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðvum þar sem 10 menn vinna eða fleiri. Með breytingunni er ekki ætlunin að breyta þessari framkvæmd heldur er talið rétt að geta ekki um tiltekinn fjölda manna í ákvæðinu heldur láta það fara eftir aðstæðum hverju sinni hvort um opinberan flutning telst vera að ræða eða ekki”.
  3. útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi á þann hátt að honum er endurvarpað með hátalara eða á annan sambærilegan hátt í rými sem er opið almenningi.

Hvenær telst verk gefið út?
Samkvæmt 2. mgr. 3. greinar höfundalaga telst verk gefið út þegar eintök af því hafa með réttri heimild verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim dreift til almennings á annan hátt.

Undantekning frá þessum einkarétti er að finna í 24. grein (sbr. 7. gr. l nr. 9/2006). varðandi höfunda, flytjendur (sbr. 45. gr.) og framleiðendur (sbr. 46. gr.). Þar segir orðrétt: ”Nú hefur eintak af verki með samþykki höfundar verið selt eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins, og er þá frekari dreifing þess heimil. Ef um er að ræða dreifingu í formi láns eða leigu verður ákvæði 1. málsl. einnig beitt um sölu eða annars konar framsal til annarra utan Evrópska efnahagssvæðisins.”

Þetta ákvæði felur í sér takmarkanir á ráðstöfunarrétti framangreindra rétthafahópa varðandi dreifingu verks en hefur ekki áhrif á einkarétt til eintakagerðar og opinbers flutnings. Hér er átt við að dreifingarrétturinn tæmist innan Evróska efnahagssvæðisins, þ.e. innri markaðarins, að því er varðar frumrit eða afrit verks þegar rétthafi annast fyrstu sölu á viðkomandi eintaki eða annað framsal eignarréttar innan bandalagsins eða það sé gert með leyfi hans. Með öðrum orðum er meginreglan sú að kaupandi öðlast frjálsan ráðstöfunarrétt yfir eintakinu með frekari sölu, skiptum, láni, leigu o.s.frv. Í athugasemdum með 7. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 9. /2006 segir orðrétt: Í tæmingarreglunni felst því í samræmi við framangreint, að handhöfn eignarréttarins að eintakinu gengur framar rétti höfundar til verksins. Tæmingarreglan felur í sér takmörkun á einkarétti höfundar með tilliti til 24. og 25. gr. höfundalaganna, þ.e. dreifingarrétti og sýningarrétti. Sjá nánari umfjöllun um tæmingarréttinn í framangreindum frumvarpsathugasemdum. Varðandi kvikmyndaverk, þar sem réttur kvikmyndaframleiðandans er mikill sbr. t.d. 41. gr. höfl., gildir sú regla sbr. 2. mgr. 45.gr. að listflytjandi getur ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverks. Hér er um svonefnda löglíkindareglu að ræða. Reglan felur í sér eins og kunnugt er að löglíkur séu fyrir því að kvikmyndaframleiðandum hafi verið framselt mikilvægustu réttindin frá rétthöfum til þess að geta ráðstafað kvikmyndaverkinu.

Hvenær telst verk flutt opinberlega.
Skilgreining á því hvenær verk telst flutt er að finna í 4. mgr. 2. greinar höfundalaga og hefur áður verið lýst hér að framan. Undantekningar frá einkarétti til flutnings varðandi flytjendur og reyndar einnig framleiðendur er að finna í 47. grein höfundalaga, sem fjallar um þóknunarrétt í stað einkaréttar þegar útgefið hljóðrit er notað til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings. Ber þá notanda (t.d. útvarps- og sjónavarpsstöðum, verslunum, veitingastöðum o.fl.) að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin. Krafa til þessa endurgjalds verður aðeins gerð af SFH, samtökum framleiðenda og listflytjenda, sem hafa fengið staðfestingu Mennta-og menningarmálaráðuneytisins. Verðskrá var áður háð samþykki ráðuneytisins, en er það ekki lengur, enda geta notendur skotið ágreiningi um gjaldið til úrskurðarnefndar skv. 57. grein höfundalaga.

Ný ákvæði komu inn með breytingu á höfundalögumlögum sbr. lög nr.9/2016 í grein 26.a og 26.b. um svokallaða samningskvöð sem gilda fyrir STEF, SFH og önnur samtök rétthafa á sviði höfundaréttar. Í 26 gr.a kemur fram að hafi samtök rétthafa, gert samning við notanda (t.d. útvarpsstöðvar, verslanir o.fl.) um þar tilgreinda hagnýtingu verka á grundvelli ákvæða í höfundalögum heimili það notanda rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka, á sama hátt og með sömu skilmálum og felast í samningnum við samtökin og hinum tilvitnuðu ákvæðum. Réttur notanda samkvæmt 1. málsl. nefnist samningskvaðaleyfi.  Hér sitja bæði flytjendur eða framleiðendnur við sama borð og höfundar. Um samningskvöð segir í athugasemdum frumvarpsins: “Í höfundalögum annarra Norðurlandaþjóða eru sérstök ákvæði um hvernig staðið skuli að samningum á grundvelli samningskvaða sem m.a. eiga að tryggja rétt utanfélagsmanna sem bundnir eru af slíkum samningum. Gildandi samningskvaðaákvæði í íslensku höfundalögunum tiltaka hvert um sig ráðstafanir til að tryggja rétt utanfélagsmanna en ekki er samræmi milli þessara ákvæða.

Öll gildandi samningskvaðaákvæðin kveða í fyrsta lagi á um að rétthafasamtök sem hafa samningsheimild á grundvelli samningskvaðaákvæðis skuli annast hagsmunagæslu fyrir „verulegan“ hluta „íslenskra“ rétthafa á viðkomandi sviði og vera viðurkennd af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Í 23. gr. gildandi laga er tilgreint að aðeins ein samtök á hverju sviði skuli fá viðurkenningu til að semja um flutning verka á grundvelli samningskvaða. Í framkvæmd hefur það verið láta gilda um aðrar samningskvaðaheimildir höfundalaganna þótt ekki sé kveðið á um það í viðkomandi lagagreinum.  Í öðru lagi er í ákvæðunum mælt fyrir um að rétthafar sem standa utan viðkomandi samtaka skuli hafa sama rétt og félagsmenn við úthlutun endurgjalds sem innheimt er samkvæmt samningi sem veitir samningskvaðaleyfi. Ólíkar reglur gilda á hinn bóginn um rétt utanfélagsmanna til einstaklingsgreiðslna og hvernig skuli fara með ágreining um slíkar kröfur sem og um fyrningu slíkra krafna. Þá gilda ekki samræmdar reglur um hvernig með skuli farið ef ekki næst samkomulag á grundvelli samningskvaða. Mikilvægt er að um þessi atriði gildi samræmdar reglur og það er því lagt til í frumvarpinu.”

Jákvæður og neikvæður einkaréttur.
Allur einkaréttur á sviði höfundaréttar (höfundar, flytjendur og framleiðendur) hefur tvær hliðar, annars vegar “neikvæður” einkaréttur og hins vegar “jákvæður” einkaréttur. Hin neikvæða hlið hans felur í sér að í þessu tilviki getur listflytjandinn bannað öðrum notkun á listflutningi sínum með eintakagerð eða dreifingu hans til almennings að frátaldri opinberri spilun hljóðrita í útvarpi og eða annarri opinberri dreifingu. Hin jákvæða hlið einkaréttarins byggist á því að listflytjandinn getur ráðstafað einkarétti sínum á hvern þann hátt sem hann óskar, hvort sem hann gerir það að öllu leyti eða að hluta. Hann getur með öðrum orðum ráðið hvort hann heimili öðrum afnot af flutningi sínum, við hvern hann semur og fyrir hvaða verð hann heimili notkunina. Hér má taka sem dæmi vinsælan tónlistarmann. Hann ákveður sjálfur hvernig hann semur um að koma sínum flutningi á framfæri og semur um það verð sem hann telur ásættanlegt t.d. með fyrirframgreiðslu og ágóðahlut ef um það er að ræða.

Varðandi flytjendur gildir því að meginstefnu sama regla um aðilaskipti og gildir varðandi höfunda sbr. 27. grein höfundalaga en þar segir orðrétt: ”Framsal höfundarréttar að nokkru eða öllu leyti er heimilt með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 4. gr.” Eins og kunnugt er fjallar 4. grein höfundalaga um tilgreiningarrétt á nafni flytjanda við opinberan flutning og sæmdarrétt hans þ.e. ef verki eða flutningi þess er breytt eða það birt með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti flytjendaheiður hans eða flytjandasérkenni.

Ennfremur kemur fram í 2. mgr. 28. gr. að framsalshafa, t.d. hljómplötufyrirtæki, er óheimilt að framselja öðrum höfundaréttindi án samþykkis höfundar. Ef rétturinn er hins vegar þáttur í eigum fyrirtækis, má þó framselja hann ásamt því eða tilteknum greinum þess. Hér gæti flytjandi t.d. þurft að sætta sig við skerðingu á þessum rétti sínum með því að þriðji aðili t.d. annað hljómplötufyrirtæki eignaðist með framsali rétt til útgáfu á tónverkum hans.

Undantekningu frá þessum einkarétti til flutnings er eins og áður segir að finna í 47. gr. höfundalaga þ.e. þegar hljóðritið er komin út og síðan spilað í útvarpi á opinberum stöðum utan þess. Þá koma til skjalanna sameiginleg samtök flytjenda og framleiðenda, sem semja fyrir hönd rétthafahópanna tveggja við notendur þ.e. útvarpsstöðvarnar um endurgjald fyrir notkun hljóðritanna og innheimta sérstakt gjald fyrir sömu not samkvæmt verðskrá. Hér er því umsýsla þóknunarréttarins tekin með lagaákvæði úr höndum flytjenda og framseld innheimtusamtökum.

Hinn neikvæði einkaréttur
Hinn svonefndi ”neikvæði” einkaréttur kemur fram í eftirtalinni upptalningu úr 1. mgr. 45. greinar höfundalaga og felur í sér bann við tilteknum aðgerðum sem brýtur gegn einkarétti flytjandans.

Eftirtaldar aðgerðir eru óheimilar án samþykkis listflytjandans samkvæmt 45. grein höfundalaga:

  1. Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarpi. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
  2. Útvarp á beinum listflutningi.
  3. Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
  4. Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. … 1

Beinn listflutningur.
Samkvæmt skilgreiningu í 1. tl. 1 .mgr. 45. gr höfundalaga er beinn listflutningur skilgreindur á eftirfarandi hátt: ”Það telst beinn listfluningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp.” Eins og fram kemur í athugasemdum í greinargerð með fyrsta frumvarpi til höfundalaga, sem varð að lögum nr. 73/1972 er átt við frumflutninginn

2.2.2.2. Önnur réttindi flytjenda í 45.grein.

  1. Framsal réttinda í kvikmyndaverkum (löglíkur).
  2. Tilvísun til annarra ákvæða í höfundalögum.

    1. 2-5.mgr. 2.gr Skilgreining á birtingu/flutningi.
    2. 4.gr. Nafngreining - sæmdarréttur. (Sænskur dómur - sæmdarréttur
      brotinn á leikkonu- ástarsena með “statista” í stað leikkonu.)
    3. 7.gr. Fleiri höfundar- samhöfundar./samflytjendur.
    4. 8.gr. Höfundur (flytjandi)telst sá sem nafngreindur er.
    5. 10.gr. a Til skamms tíma eða tilfallandi eintakagerð o.fl.
    6. 1.mgr. og 3.tl. 2. mgr. 11.gr. Takmarkanir höf. /grenndarréttar - Einkanot heimil.
      1. gr. og 12. gr. a-b.Takmarkanir. Heimild fyrir bókasöfn og svipaðar stofnanir til eintakagerðar og til að veita aðgang að verkum
      1. og 3. mgr. 14.gr. Takmarkanir höf. /grenndarréttar - Tilvitnun í tónverk heimil, ef það er gert v. gagnrýni, vísinda, almennrar kynningar eða í viðurkenndum tilgangi. Endurbiting listaverks í fræðsluefni o.fl.

2.2.9. 3. og 4. mgr. 15.gr. Takmarkanir höf./grenndarréttar- Flutningur þáttur dægurviðburðar í útvarpi. Útvarpsstöð - stutt myndskeið.

2.2.10. 17.gr. Birting í safnverkum- ætluð til notkunar við guðsþjónustu, skólakennslu eða útvarpskennslu.

2.2.11. 18.gr. Takmarkanir höf./grenndarréttar –Heimild einkarekinna stofnana, samtaka og atvinnufyrirtækjum að láta gera til notkunar innan starfsemi sinnar eintök af útgefnum eða aðgengilegum verkum o.fl.

2.2.12. © Heimild til eftirgerðar og dreifingar útgefinna eintaka af verkum til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða o.fl. 

2.2.13. 21. gr. Takmarkanir höf./grenndarréttar Útgefinn tónflutningur í fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, í skólum og í félögum og við guðþjónustur.

2.2.14. 22.gr. Heimil prentun, upptaka á hljóðrit og önnur eintakagerð og birting á opinberum fulltrúasamkomum og á gögnum, sem þar eru lögð fram o.fl.

2.2.15. 22.gr. a  Heimild að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum

2.2.16. 23.gr. Heimild útvarpsstöðva til að senda út útgefnin verk með ° samingskvaðaleyfi

2.2.17. 23.gr.a. Heimild til endurvarps byggt á samningskvaðaleyfi

2.2.18. 23.gr. b. Heimild útvarpsstöðva til nota eldra efnis byggt á samningskvaðaleyfi.

2.2.19. 24.gr. Tæmingarréttur.Takmarkanir á einkarétti höfundar/flytjenda varðandi dreifingu. Handhöfn eignarréttarins að eintakinu gengur framar rétti höfundar/flytjenda til verksins.

2.2.20. 26.gr. Takmarkanir höf./grenndarréttar- Tilgreining heimildar við birtingu verka og óheimilar breytingar án samþ. höf. nema í lögmætum tilgangi.

2.2.21. 27.-31.gr. III. kafli um aðilaskipti að höfundarétti.

2.2.22. 3.mgr. 41.gr. Hæfileg þóknun fyrir útleigu kvikmyndaverks. (óafsalanlegt gjald vegna útleigu kvikmyndaverks)

2.2.23. 53. gr. Sæmdarréttur gildir fyrir verk sem ekki eru háð höfundarétti. 2.2.24. 57.gr. Ágreiningur um gjald - úrskurðarnefnd.

2.3. Reglan um 12 listflytjendur (sbr.12.gr. l.57/1992).
Stéttarfélag viðkomandi flytjenda hefur heimild til að samþykkja eftirgerð og endurnot flunings hafi fleiri en 12 listflytjendur staðið saman að listflutningi. Ekkert sambærilegt ákvæði og þetta er í norrænni höfundarréttarlöggjöf. Þetta var sett inn til hagræðis, þurfi að endurútgefa efni, þar sem margir flytjendur eiga í hlut og erfitt eða ókleift að ná til þeirra allra. Héraðsdómur í máli FÍH gegn Þjóðleikhúsinu frá 16.2. 2001 er fyrsti dómur þar sem málsaðild er byggð á þessu ákvæði. Staðfest brot á 4.tl. 1.mgr. 45. gr. höfundalaga. Skaðabætur. Miskabótum hafnað.

3.0. Réttindi hljómplötuframleiðenda.

Réttindi hljómplötuframleiðenda byggjast einkum á rétti til eintakagerðar, rétti til birtingar (flutnings og dreifingar) og rétti til þóknunar fyrir notkun verka sinna. Hér er því um sams konar réttindi og flytjendur hafa og flest það sem sagt hefur verið um flytjendur á við um hljómplötuframleiðendur að undanskildum sæmdarréttinum eins og áður hefur komið fram.

Samkvæmt 3. grein Rómarsáttmálans telst framleiðandi hljóðrits sá einstaklingur eða lögaðili, sem framkvæmir fyrstu hljóðupptöku listflutnings eða annarra hljóma. Í WIPO sáttmálanum um listflytjendur og hljómplötuframleiðendur frá 20. desember 1996 er skilgreiningin orðin nokkuð rýmri, en þar er hljómplötuframleiðandi talinn einstaklingur eða lögaðili, sem hefur frumkvæði og er ábyrgur fyrir fyrstu hljóðupptöku listflutnings eða annarra hljóma eða kynninga á hljómum.

Samkvæmt 46. grein höfundalaga eru eftirfarandi ráðstafanir á mynd- og hljóðritunum óheimilar án samþykkis framleiðanda: Eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum.

4. Tilvísun til annarra ákvæða í höfundalögum
a) 2-5. mgr. 2. gr. Skilgreining á birtingu/flutningi.
b) 7.gr. Fleiri en einn höfundur/hljómplötuframleiðandi.
c) 8.gr. Höfundur/hljómplötuframleiðandi sá sem nafngreindur er.
d) 10.gr. a Til skamms tíma eða tilfallandi eintakagerð o.fl.
e) 1.mgr. og 3.tl. 2.mgr. 11.gr. Takmarkanir höfundaréttar/grenndarrétar - Einkanot heimil.
f) 12.gr og 12.gr. a.-b. Takmarkanir. Heimild fyrir bókasöfn og svipaðar stofnanir til eintakagerðar og til að veita aðgang að verkum
g) 1. og 3.mgr.14. gr. Takmarkanir höfundaréttar/grenndarréttar- Tilvitnun í tónverk heimil, ef það er gert v. gagnrýni, vísinda, almennrar kynningar eða í viðurkenndum tilgangi. Endurbiting listaverks í fræðasluefni o.fl.
h) 3. og 4. mgr.mgr. 15. gr.Takmarkanir höf./grenndarréttar-Flutningur þáttur í dægurviðburðar í útvarpi Útvarpsstöð - stutt myndskeið\
i) 17.gr. Birting í safnverkum- ætluð til notkunar við guðsþjónustu, skólakennslu eða útvarpskennslu.
j) 18.gr. Heimild einkarekinna stofnana, samtaka og atvinnufyrirtækjum að láta gera til notkunar innan starfsemi sinnar eintök af útgefnum eða aðgengilegum verkum o.fl.
k) 1. 2. og 4. mgr.19.gr. Heimild til eftirgerðar og dreifingar útgefinna eintaka af verkum til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða o.fl.
l) 21. gr. Takmarkanir höf./grenndarréttar Útgefinn tónflutningur í fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, í skólum og í félögum og við guðþjónustur.
m) 22.gr. Heimil prentun, upptaka á hljóðrit og önnur eintakagerð og birting á opinberum fulltrúasamkomum og á gögnum, sem þar eru lögð fram o.fl.
n) 22.gr. a  Heimild að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum
o) 23.gr. b. Heimild útvarpsstöðva til nota eldra efnis byggt á samningskvaðaleyfi.
p) 24.gr. Tæmingarréttur.Takmarkanir á einkarétti höf./framleiðenda varðandi dreifingu.Handhöfn eignarréttarins að eintakinu gengur framar rétti höfundar/framleiðenda til verksins. Frjáls ráðstöfunarréttur yfir eintakinu með frekari sölu, skiptum, láni, leigu o.s.frv. Hefur ekki áhrif á einkarétt höfunda/framleiðenda til eintakagerðar og opinbers flutnings.
q) 26.gr. a-c. Samningskvaðaleyfi
r) 57.gr. Ágreiningur um gjald - úrskurðarnefnd

4.0. 47. grein höfundalaga.

47. grein íslensku höfundalaganna er að meginstefnu byggð á 12. grein Rómarsáttmálans um vernd listflytjenda, framleiðenda og útvarpsstofnana frá 1961. Greinin fjallar um þóknunarrétt til handa flytjendum og framleiðendum vegna flutnings markaðshljóðrita í hljóðvarpi, sjónvarpi og á öðrum opinberum stöðum þar fyrir utan, svo sem í veitingahúsum, verslunum, flugvélum, skemmtistöðum, skipum og öðrum opinberum stöðum þar sem tónlist er leikin af hljómplötum beint eða óbeint, þ.e. úr útvarpi.

12. grein Rómarsáttmálans hljóðar svo: “Nú er hljóðrit sem gefið hefur verið út í viðskiptaskyni eða eftirgerð slíks hljóðrits notað beint til útvarpssendingar eða annarrar miðlunar til almennings og skal notandi þá greiða sanngjarna þóknun í einu lagi til listflytjenda eða til framleiðenda hljóðritsins eða þeirra beggja. Heimilt er að setja skilmála um skiptingu þóknunarinnar milli aðilanna í innlendum lögum, enda hafa þeir ekki sjálfir samið um hana sín á milli.”

Í alþjóðlegum sáttmála WIPO um listflutning og hljóðritanir sem samþykktur var í Genf 20. desember 1996, eru ákvæði 12. greinarinnar endurbætt nokkuð. Þar segir í 15. grein sáttmálans: “1. Performers and producers of phonograms shall enjoy the right to a single equittable remuneration for the direct or indirect use of phonograms published for commercial purposes, for broadcasting or for any communication to the public.

2. Contracting parties may establish in their national legislation that the single equittable remuneration shall be claimed from the user by the performer or by the producer of a phonogram or both.”

Ákvæði núgildandi 47. greinar höfundalaga er svohljóðandi: ”Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.”

Með orðunum útvarp er að sjálfsögðu einnig átt við sjónvarp samanber 6. mgr. 2. gr. höfundalaga. Hér er ekki einungis átt við hinar venjubundnu útsendingar hljóðvarps og sjónvarps frá jarðstöð, heldur einnig einnig gervihnattarsendingar, hvort sem um er að ræða beint til neytenda eða í gegnum dreifingaraðila, sem dreifir efninu með þræði eða þráðlaust. Um kapalsendingar gilda sérreglur sbr. 23. grein a. höfundalaganna, en þar er gert ráð fyrir því að semja þurfi við rétthafa áður en til útsendinga kemur.

Önnur opinber dreifing skv. 47. grein er eins og áður hefur fram komið flutningur hljóðrita á atvinnustöðum, skemmtistöðum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, hársnyrtistofum o.s.frv. Hér skiptir ekki máli hvort hjóðritið er leikið beint á staðnum, eða útvarpstónlist af hljóðritum er dreift þar með hátalara. Eins og áður hefur verið vikið að hér að framan gilda sérstakar reglur um afnot á atvinnustöðum sbr. 2. tl. 4. mgr. 2. gr. höfundalaga, þar sem segir að það teljist opinber birting þegar verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur. Í eldra lagaákvæði var miðað við 10 manns eða fleiri. Ætlun löggjafans var ekki sú að breyta þessari framkvæmd heldur láta það fara eftir aðstæðum hverju sinni hvort um opinberan flutning telst vera að ræða eða ekki.  Um opinberan flutning tónlistar á öðrum stöðum gilda rýmri reglur svo sem skemmtistöðum, veitingahúsum, hársnyrtistofum, líkamsræktarstöðum og víðar, þar sem tónlist er dreift í þágu viðskiptamanna. Varðandi innheimtu þessa endurgjalds var í upphafi stuðst við það að sérstöku hátalarakerfi hefði verið komið fyrir til dreifingar á tónlistinni. Með aukinni tækni hafa hljómflutningstækin hins vegar orðið öflugri og því ekki að öllu leyti hægt að byggja á þessar reglu, þar sem tónlist getur heyrst um heilan vinnustað frá litlu hljómflutningstæki.

Setningarbrotið “að greiða framleiðanda þess og listflytjendum sameiginlega þóknun fyrir afnotin” er augljóslega tekið úr 12. grein Rómarsáttmálans, þar sem talað er um “a single equitable remuneration”, sem greiða eigi flytjendum og framleiðendum. Þetta ákvæði er samið með það í huga að gera notendum hægar um vik að greiða þóknunina í einu lagi til framleiðenda og listflytjenda í stað þess að þurfa að leita uppi ótal aðila. Af þeim sökum var talið nauðsynlegt til þess að framkvæmd á þessum rétti væri sem skilvirkastur, að setja á fót sameiginleg innheimtusamtök fyrir framleiðendur og listflytjendur. Hefur það verið gert hér á landi með samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda,skammstafað SFH, sem stofnuð voru 1973, og samþykktir þeirra staðfestar af Menntamálaráðuneytinu og gefnar út sem rgl. nr. 228/1973. Heimild til stofnunar samtakanna er að finna í 2. mgr. 47. gr. laganna.

Um rétt framleiðenda og flytjanda hljóðrits er fjallað í 3. mgr. 47. gr. höfundalaga. Þar kemur fram að slík þóknun skuli fara eftir heildarsamningi milli samtaka rétthafa og notanda eða samtaka hans.

Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH, hefur allt frá stofnun gert heildarsamninga við útvarpsstöðvar, sem í upphafi var ein, en eru nú orðnar fjölmargar, bæði stórar og smáar með mjög mismunandi útsendingarsvæði og útsendingar- og líftíma.

SFH hefur heimild í sama ákvæði til að setja verðaskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps, enda feli slíkur flutningur ekki í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. þ.e. notandi greiði ekki rétthafa fyrir sérhver not eins og viðgengst á netinu þegar notandi ákveður stað og stund slíkra nota. Hér er semsagt verið að banna að fella gagnvirka þjónustu á netinu undir þetta ákvæði. Hér víki samningskvöðin fyrir einkarétti flytjenda og framleiðenda

Í gildi er verðskrá SFH sem á við um rekstraraðila atvinnufyrirtækja sem flytja tónlist opinberlega. Framkvæmd slíkrar innheimtu hefur STEF annast fyrir hönd SFH og greiðir notandi 60% til viðbótar gjaldi STEFS til handa flytjendum og framleiðendum.

Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga Getur nefndin gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin, en ella er mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra hljóðrita uns trygging hefur verið sett. 

Hér liggur nærri að í stað þóknunarréttar flytjenda og framleiðenda komi einkaréttur til að banna flutninginn. Í stað þess að rétthafarnir geri það sjálfir, er hér um að ræða opinberan þriðja aðila, sem getur stöðvað flutninginn. Þetta ákvæði er nýmæli og er einungis að finna svipað ákvæði í norskri höfundalöggjöf.

Innheimtusamtök á borð við SFH og STEF eru samtök, sem innheimta bæði fyrir erlenda og innlenda rétthafa. SFH innheimtir bæði fyrir þá sem eiga aðild að SFH og þá sem standa utan samtaka sem aðild eiga að SFH, sbr. ákvæði höfundalaga í 1. mgr. 26.gr. b..

Árið 2016 var höfundalögunum breytt með lögum nr. 9/2019 til þess að gera heimildir samtaka á borð við SFH og STEF skýrari. Fengu þá notendur tónlistar eins og útvarpsstöðvar svokallað samningskvaðaleyfi skv. 1. mgr. 26. gr. a til að hagnýta viðkomandi hljóðrit hvort sem rétthafar væru utan eða innan viðkomandi rétthafasamtaka.

Skilyrði samningskvðaleyfis koma fram í sama ákvæði og hér að framan hefur verið tilgreint en þar segir: “Samningskvaðaleyfi geta notendur einnig fengið sem samið hafa um slíkt við samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., að því tilskildu að:a. samningurinn um slíkt samningskvaðaleyfi taki til afmarkaðs og vel skilgreinds sviðsb. samningskvaðaleyfi sé forsenda þess að nýting sé mögulegc. samningurinn sé skriflegur og í honum tekið fram að hann veiti samningskvaðaleyfi.”

Á ensku hefur samningskvaðaleyfið verið nefnt Extended Collective Licence (ECL), sem segja má að sé útvíkkað innheimtuumboð til handa SFH og sambærilegra samtaka. Hér er byggt á hagkvæmissjónarmiðum í því skyni að notendur tónlistar svo sem útvarpsstöðvar geti gert samning við einn aðila sem ábyrgist greiðslur til allra rétthafa viðkomandi greinar, hvort sem um er að ræða flytjendur eða framleiðendur.

Sá böggull fylgir þó skammrifi varðandi SFH að eitt stærsta framleiðendaland hljóðrita stendur fyrir utan Rómarsáttmálann. Bandaríkin er það ríki. Þau hafa hins vegar gerst aðilar að WIPO sáttmálanum frá 1996, en með þannig fyrirvörum að einungis er greitt af þeirra hálfu fyrir stafræna dreifingu tónlistar. Orðrétt hljóðar fyrirvarinn frá 14. september 1999 þannig: “ the United States will apply the provisions of Article 15(1) of the WIPO Performances and Phonograms Treaty only in respect of certain acts of broadcasting and communication to the public by digital means for which a direct or indirect fee is charged for reception, and for other retransmissions and digital phonorecord deliveries, as provided under the United States law." Þessi fyrirvari hefur það vitaskuld í för með sér að þeir greiða ekki fyrir afnot tónlistar í hefðbundnum útsendingum útvarpsstöðva og spilun á opinberum stöðum. Þar sem Bandaríkin eru utan Rómarsáttmála hefur það leitt til þess að flytjendur og framleiðendur frá öllum aðildarlöndum sáttmálans hafa ekki fengið greitt fyrir flutning í hefðbundum útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum. Á sama hátt hafa t.d. flytjendur frá Bandaríkjunum ekki heldur fengið greitt vegna opinbers flutnings tónlistar af hljóðritum innan landa Evrópska efnahagssvæðissin.

Dómur Evrópudómstólsins sem kveðinn var upp þann 8. september 2020 í málinu C-265/19, RAAP, hefur hins vegar breytt þessu fyrirkomulagi þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Evrópuréttur kemur í veg fyrir að ríki innan Evrópusambandsins geti útilokað að flytjendur sem eru ríkisborgarar landa utan Evrópska efnahagssvæðisins fái greitt sanngjarna þóknun fyrir opinbera spilun tónlistarhljóðrita. Bandaríkin er eitt þessara landa.

Mörg lönd innan Evrópusambandsins hafa mótmælt þessari niðurstöðu og telja hana m.a. stangast á við alþjóðareglur um gagnkvæmni. Það sé óeðlilegt að Bandaríkin geti krafið Evrópulönd um sanngjarna þóknun fyrir bandaríska ríkisborgara vegna opinberrar spilunar tónlistar í Evrópu, en Evrópulönd geti ekki krafist sömu þóknunar fyrir ríkisborgarar innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna spilunar innan Bandaríkjanna. Frakkland og fleiri lönd innan Evrópu hafa hafið undirbúning þess að breyta reglum Evrópusambandsins til að leiðrétta þennan augljósa mismun á réttindum.

Tekjum SFH að frádregnum rekstrarkostnaði er skipt jafnt á milli flytjenda og framleiðenda, en í framleiðendadeild SFH eru hljómplötuframleiðendur svo sem Alda, Smekkleysa, 12 Tónar, Geimsteinn og fleiri smærri aðilar, og mynda þeir með sér Félag hljómplötuframleiðenda. Hins vegar er flytjendadeild þar sem Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, er langstærst, en önnur samtök eru, Félag íslenskra tónlistarmanna, FÍT, Félag íslenskra leikara, einsöngvaradeild, Samband íslenskra karlakóra, Samband íslenskra lúðrasveita og Kirkjukórasamband Íslands.

Innheimtusamtök erlendis á borð við SFH og STEF hafa oft verið borin þeim sökum að nota markaðsráðandi stöðu sína til þess að ná fram samningum, sem gætu talist brot á samkeppnisreglum. Ýmsir dómar hafa fallið varðandi stöðu innheimtusamtaka í Evrópu fyrir Evrópudómstólnum og er niðurstaða þeirra allra á sama veg þ.e. að ekki verði talið að starfsemi samtakanna sem slíkra brjóti í bága við samkeppnislög. Má í þessu sambandi t.d. benda á dóm í svokölluðu BR. II mál frá 1974, mál gegn belgískum innheimtusamtökum höfunda, SABAM. Þar segir m.a. í forsendum dómsins: “Hvað varðar uppbyggingu innheimtusamtakanna verður að hafa í huga, að starfsemi þeirra felur í sér samtök, sem hafa þann tilgang að vernda réttindi og hagsmuni einstakra félagsmanna sérstaklega gagnvart umtalsverðum notum og útsendingum á tónlist, sem á sér stað með dreifingu útvarpsstöðva og hljómplötufyrirtækja. Skilvirk framkvæmd á vernd þessara réttinda og hagsmunum krefst þess að samtökin hafi þá stöðu að viðkomandi höfundar hafi falið samtökunum þessi réttindi í þeim mæli sem er nauðsynlegt til þess að framfylgja aðgerðum samtakanna af nægilegum styrk.” Dómstóllinn virðist samkvæmt framansögðu hafa fullan skilning á stöðu innheimtusamtaka á sviði höfundaréttar (og grannréttinda). Hér er ekki aðeins fallist á að innheimtusamtökin séu skilvirkasta rekstrarskipanin, heldur viðurkennir dómstóllinn einnig að samtökin geti gengið alllangt í því að notfæra sér markaðsstöðu sína, svo fremi að tilgangurinn sé árangursrík vernd á hagsmunum og réttindum félagsmanna sinna.

Lög nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar.
Í febrúar 2014 samþykktu stofanir Evrópusambandsins tilskipun 2014/26/ESB um umsýslu réttinda á höfundaréttarsviðinu. Undir þessa tilskipun fellur bæði starfsemi SFH og systursamtaka í Evrópu og innan EES og starfsemi höfundaréttarsamtaka sömu landa.

Hinn 27. júní 2019 tóku gildi lög um sameiginlega umsýslu höfundarréttar þar sem framagreind tilskipun var innleidd.

Við undirbúning frumvarpsins var höfð hliðsjón af innleiðingu tilskipunarinnar í öðrum norrænum ríkjum, einkum í Danmörku.Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er markmið þess að bæta starfshætti rétthafasamtaka, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir, með því að setja samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag þeirra.

Reglurnar eiga að tryggja viðeigandi þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli sameiginlegra umsýslustofnana og upplýsingaflæði til rétthafa, annarra rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og alls almennings. Þá eiga reglurnar að tryggja að umsýsla tekna sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta fyrir hönd rétthafa sé í samræmi við lög. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu.

4.1. Dómar vegna 45., 46. og 47. gr. höfundalaga

4.1.1. Dómar varðandi SFH og STEF.
Fallið hafa nokkrir dómar í undirrétti á síðustu árum þar sem reynt hefur á túlkun á 47. grein höfundalaga. Stefndu hafa í þeim tilvikum synjað greiðslu gjalda til SFH og STEFs vegna opinbers flutnings tónlistar. Öll þessi mál hafa fallið innheimtusamtökunum í vil. Stefndu hafa í þessum tilvikum verið verslunareigendur (málið nr. E-42244/1995-Héraðsd Rvíkur og (mál nr. E- 263/2001 Héradsd. Vesturl.), bílasali (málið nr. E-953/1997 Héraðsd. Rvíkur) og hárgreiðslustofa (Héraðsd. Reykjan. uppkv. 1. 10. 1997).

4.1.2. Dómar vegna ólögmætrar dreifingar tónlistar og kvikmynda á netinu.
Fallið hafa tveir hæstaréttardómar vegna ólögmætra nota á netinu. Reynir þar einkum á réttinn til eintakagerðar (45. og 46. gr höfundalaga) og birtingarréttinn (45. og 46. gr. sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga (enska: ”making available right”)Sá fyrri er nr. 472/2008 og hinn síðari nr. 214/2009. Einnig má benda á úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. K-8/2013 sem kveðinn var upp þann 14. október 2014 en þar var lagt fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri athöfn Vodafone að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að 5 vefsíðum þar sem hægt var í heimildarleysi að nálgast kvikmyndir og tónlist.

Í fyrra hæstaréttarmálinu gaf ákæruvaldið út ákæru gegn 9 einstaklingum. Sakfellt var. Voru hinir sakfelldu ákærðir fyrir brot gegn höfundalögum nr. 73/1972 með því að gera ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni, vista þau í nettengdum tölvum og birta hópi fólks á lokuðu svæði án heimildar rétthafa. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms að ákærðu hefðu gerst sekir um brot gegn lögum nr. 73/1972. Einn ákærðu var einnig sakfelldur fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu með því að hafa hýst og haft umsjón með miðlæga nettengipunktinum „Ásgarði“. Með því hefði hann í verki hvatt til þess að meðákærðu birtu á veraldarvefnum ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni, án heimildar frá rétthöfum. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. : “Réttur höfundar til hugverks er eignarréttur samkvæmt 1. mgr. 1. gr. höfundarlaga. Í því felst annars vegar fjárhagslegur réttur sem er einkaréttur höfundar til hvers konar afritunar verks og til að birta það, sbr. 3. gr. laganna, og hins vegar sæmdarréttur sem nánar er lýst í 4. gr. þeirra. Sambærilegrar verndar nýtur listflutningur samkvæmt 45. gr. og 46. gr. laganna Deilt var einnig um hvað væri eintakagerð og hvort að þróun afritunartækni gæti haft það í för með sér að ekki væri litið á gerð starfæns eintaks sem eintakagerð. Um það segir í niðurstöðu Hæstaréttar: “Af hálfu ákærðu er því haldið fram fyrir Hæstarétti að sú háttsemi þeirra að hlaða niður því efni sem ákært er vegna teljist ekki vera eintakagerð í skilningi 1. mgr. 2. gr. höfundalaga fyrir þá breytingu sem gerð var með lögum nr. 9/2006 en þá voru höfundalög samræmd efni tilskipunar 2001/29/EB. Vísar verjandi þar til þessa orðalags í 1. mgr. 2. gr. höfundalaga „[það] er eintakagerð þegar hugverk … er tengt hlutum“ og telur að þar geti einungis verið um að ræða áþreifanlega hluti. Tilgangurinn með greindri tilskipun var að tryggja það að hugverk og eintök þeirra á stafrænu formi nytu sömu verndar og önnur höfundaréttarvernduð verk. Framangreindu orðalagi 1. mgr. 2. gr. höfundalaga var hins vegar ekki breytt þar sem litið var svo á að það hefði „verið túlkað svo að það [fæli] í sér öll þau réttindi sem talin eru upp í 2. gr. tilskipunarinnar.“ Í höfundaréttarlegu tilliti er ekki munur á merkingu hugtaksins „eintak“ eftir því hvort kvikmynd er til dæmis afrituð á myndband, DVD disk eða hlaðin niður á harðan disk í tölvu. Munurinn felst í þróun afritunartækni. Allar þessar aðferðir gera mögulegt að dreifa efni til annarra.”Síðari hæstaréttardómurinn snýr að máli sem var rekið sem einkamál og er eins og áður sagði nr. 214/2009. Istorrent og Svavar Lútherson gegn Sambandi og eigenda flutningsréttar ( STEF). Í því máli var staðfest lögbann við ólögmætri dreifingu efnis með tilstuðlan heimasíðunnar www.istorrent.Í undirréttardómnum er rakið í hverju brotin á höfundalögum voru fólgin: “Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverkieignarrétt að því með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Í 3. gr. laganna er síðan mælt fyrir um einkarétt höfundar verks til að gera eintök af því og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Hér hefur það og sérstaka þýðingu að með 45. gr. laganna er listflytjendum veittur einkaréttur til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings og samkvæmt 46. gr. þeirra er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, óheimil án samþykkis framleiðanda uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Þegar tekin skal afstaða til ábyrgðar samkvæmt höfundalögum þegar höfundaréttarvörðu efni er dreift með rafrænum hætti á alnetinu án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa ber fyrst að nefna að telja verður að réttarstaðan sé ljós þegar kemur að ábyrgð þess sem setur höfundaréttarvarið efni á netið þannig að aðrir geti nálgast það þar. Er enginn vafi á því að með slíkri athöfn er brotið gegn framangreindum einkarétti höfundarins og eftir atvikum listflytjanda, sbr. ennfremur 2. gr. höfundalaga og lög nr. 9/2006 um breytingu á þeim, og fer um refsi- og bótaábyrgð vegna þess eftir 54. gr. og 56. gr. höfundalaga. Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram að það að hlaða niður skrá sem hefur að geyma höfundaréttarvarið efni á eigin tölvu til einkanota teljist heimil eintakagerð samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga. Sé slík skrá hins vegar gerð aðgengileg öðrum, til dæmis á jafningjaneti, er um skýlaust höfundaréttarbrot að ræða.”Máli þessu var skotið til Hæstaréttar.Í dómi Hæstaréttar er birtingarhugtakið túlkað. Þar segir: m.a. í III. kafla í niðurstöðu Hæstaréttar: „þeir, sem setja efni sem varið er af höfundarétti á netið þannig að aðrir geti nálgast það, teljist birta það í merkingu 3. mgr. 2. gr. höfundalaga og brjóti með því gegn einkarétti höfundar og eftir atvikum listflytjanda sé það gert án heimildar.

Rétthafar (STEF, FHF o.fl.) kærðu á sínum tíma til lögreglu hugverkabrot hjá stærstu ólöglega vefsvæðinu á Íslandi (deildu.net), þar sem flestir Íslendingar sóttu efni á netinu (yfir 40.000 skráðir notendur).

Meginmarkmið forráðamanna vefsvæðisins var að stuðla að ólöglegri dreifingu verka sem verndar nytu samkvæmt höfundalögum. Rannsókn lögreglu stóð yfir í mörg ár án nokkurs árangurs. Vegna þessa úrræða- og afskiptaleysis lögreglu ákváðu rétthafar árið 2014 að óska lögbanns hjá fimm stærstu fjarskiptafyrirtækjum (Símanum, Vodafone, Tal, Hringdu og 365 Miðlum). Krafist var lokunar netaðgengis hjá tveimur stærstu ólöglegu vefsvæðunum, The Pirate Bay og deildu.net.

Haldið var uppi töluverðum vörnum af hálfu fjarskiptafyrirtækjanna. Málinu (nr. K-8/2013) lauk með úrskurði Hérðaðsdóms Reykjavíkur þann 14. október 2014. Í niðurstöðu kemur fram að rétturinn taldi að vefsvæðin piratbay.se og deildu.net o.fl. væru sambærileg vefsvæði og vefsvæðið torrrent.is sem á reyndi í áðurnefndu hæstaréttarmáli nr. 214/2009 frá 2009. Í fyrra tilvikinu var mál höfðað gegn rekstraraðila vefsvæðisins, en hér snérist dómkrafan um lokun vefsvæðis hjá fjarskiptafyrirtæki sem hýsti viðkomandi vefsvæði. Eins og áður sagði var lögbannskrafa rétthafa (STEF) tekin til greina.

Fjarskiptafyrirtækin ákváðu að áfrýja niðurstöðunni ekki til Hæstaréttar. Var því komið skýrt dómafordæmi sem byggt verður á í framtíðinni gegn sambærilegum vefsvæðum sem hafa þann megintilgang að stuðla að heimildarlausri dreifingu í miklu magni á því efni sem að framan er rakið.

Framangreind lögbannsmál hafa reynst rétthöfum mjög kostnaðarsöm og ljóst að rétthafar hafa ekki bolmagn til þess að standa í stöðugum málaferlum til þess að vernda réttindi sín. Frá þessum tíma hefur orðið mikil breyting í dreifingu tónlistar á tónlistarmarkaðnum m.a. með tilkomu tónlistarstreymis. Sem betur fer heyrir nú ólögleg not tónlistar til algjörra undantekninga, þar sem rétthafar fá nú greitt fyrir hin lögmætu not á réttan háttt.

4.2. Önnur höfundaréttarsamtök
Eina málið sem rekið hefur verið fyrir almennum dómstólum og fjallað hefur um starfsemi innheimtusamtaka og skiptingu tekna er mál nr. E-2195/1997 sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en dómur var kveðinn upp þann 27. mars 1998. Stefnendur voru þeir Ágúst Guðmundsson, Friðrik Þór Friðriksson, Hrafn Gunnlaugsson og Þráinn Bertelsson. Stefndi var Rithöfundasamband Íslands, sem hér er í hlutverki innheimtusamtaka. Dómurinn féllst á kröfur stefnenda að hluta og taldi reglur um úthlutun til félagsmanna ólögmæta þar sem t.d. hluta teknanna var ráðstafað í rekstur samtakanna.

5.0. Nokkur samtök rétthafa höfundaréttar og grannréttinda höfundaréttar.

Ritlist.

  • Rithöfundasamband Íslands sbr. 23. gr. höfundalaga.
  • Hagþenkir.
  • Félag íslenskra bókaútgefenda.
  • Blaðamannafélag Íslands.

Tónlist.

  • Tónhöfundar.

    • Tónskáldafélag Íslands.
    • Félag tónskálda og textahöfunda.
    • STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar sbr. 23. gr. höf.laga.
  • Tónflytjendur.

    • Félag íslenskra hljómlistarmanna.
    • Félag íslenskra leikara (einsöngur).
    • Félag íslenskra tónlistarmanna.
    • Samband íslenskra karlakóra.
    • Samband íslenskra lúðrasveita.
    • Kirkjukórasamband Íslands
    • Samband blandaðra kóra

Hljómplötuframleiðendur.

  • Félag hljómplötuframleiðenda.

Flytjendur og framleiðendur.

  • Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda sbr. 47. gr. höf.laga.

Kvikmyndalist.

  • Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda.
  • Samband kvikmyndaleikstjóra.
  • Félag kvikmyndagerðarmanna.
  • Félag leikskálda og handritshöfunda

Myndlist.

  • Myndstef sbr. 25. gr. höfundalaga.
  • Félag íslenskra myndlistarmanna.
  • Félag leiktjaldamálara.

Önnur samtök.

  • IHM, innheimtustofnun gjalda samkvæmt 11. gr. höfundalaga.
  • FJÖLÍS, sbr. 26. grein a. í höfundalögum. Innheimtusamtök höfunda og útgefenda vegna eintakagerðar samins máls í ræðu og riti, leiksviðsverkum, tónsmíðum, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og öðrum samsvarandi listgreinum.
  • Félag íslenskrar leikstjóra