Heimildarákvæði

1) Sanngjörn þóknun fyrir afnotin - 1.mgr. 47.gr.

Orðrétt segir í 1. mgr. 47.gr.: ,,Nú er hljóðrit sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur: (þ.e. innan 50 ára frá næstu árarmótum eftir að frumupptaka var framkvæmd) a) til flutnings í útvarpi eða b) til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber notanda þá að greiða framleiðanda þess og listflytjendum sameiginlega þóknun fyrir afnotin"

Þarna kemur fram að flytjendur og framleiðendur eiga að standa saman að innheimtu sameiginlegrar þóknunar fyrir afnotin. Notandinn greiðir ekki í tvennu lagi eða til sérhvers rétthafa innan framleiðendahlutans og sérhvers rétthafa innan flytjendahlutans. Þetta er gert til hagræðis fyrir notandann sem í þessu tilviki getur verið útvarpsstöð, eigandi veitingastaðar sem spilar tónlist af hljómplötum fyrir viðskiptavini, eigandi verslunar, eigandi líkamsræktarstöðvar eða eigandi annars staðar sem notar hljómplötur eða útvarpstæki til þess að dreifa tónlist til almennings.

Í þessu skiptir ekki máli hvort hjómplatan eða annað hljóðrit er leikið beint á staðnum, eða útvarpstónlist af hljóðritum er dreift þar með hátalara.

Sérstök regla gildir um afnot af tónlist á atvinnustöðum sbr. 5. mgr. 2. gr. höfundalaga, þar sem segir að það teljist opinber birting þegar verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri. Þessi regla er rýmri um afnot á öðrum stöðum svo sem skemmtistöðum, veitingahúsum, hársnyrtistofum, líkamsræktarstöðum og víðar, þar sem tónlist er dreift í þágu viðskiptamanna. Varðandi innheimtu þessa endurgjalds var í upphafi stuðst við það að sérstöku hátalarakerfi hefði verið komið fyrir til dreifingar á tónlistinni. Með aukinni tækni hafa hljómflutningstækin hins vegar orðið öflugri og því ekki að öllu leyti hægt að byggja á þessar reglu, þar sem tónlist getur heyrst um heilan vinnustað frá litlu hljómflutningtæki.

Rómarsáttmálinn

Fyrirmynd að efni 47. greinar höfundalaga er 12. grein alþjóðasamnings um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana. Sáttmáli þessi hefur verið nefndur Rómarsáttmálinn eða Rómarsamningurinn, en hann var undirritaður í Róm 26. október 1961. Hann var birtur í C-deild Stjórnartíðinda þann 28. júní 1995 sbr. auglýsingu nr. 2/1994.

Orðrétt hljóðar framangreind 12. grein svo: ,,Nú er hljóðrit sem gefið hefur verið út í viðskiptaskyni eða eftirgerð slíks hljóðrits notað beint til útvarpssendingar eða annarrar miðlunar til almennings, og skal notandi þá greiða sanngjarna þóknun í einu lagi til listflytjenda eða til framleiðenda hljóðritsins eða þeirra beggja. Heimilt er að setja skilmála um skiptingu þóknunar milli aðilanna í innlendum lögum, enda hafi þeir ekki sjálfir samið um hana sín á milli."

Í orðunum sanngjarna þóknun í einu lagi er að finna kjarnann í tilgangi SFH þ.e. að notandinn greiði sanngjarna þóknun til eins aðila, sameiginlegra samtaka flytjenda og framleiðenda.

2) Ein innheimtusamtök - 2. mgr 47.gr.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 47. greinar verður krafan til endurgjalds aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga. Skilyrði er um að samtökunum hafi verið settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Þessi samtök eru SFH eins og áður segir sem stofnuð voru árið 1973 í framhaldi af gildistöku nýrra höfundalag árið 1972.

En hvernig bera samtökin sig við að innheimta framangreinda sanngjörnu þóknun og hvernig skipta þeir henni?

3) Samningar við útvarpsstöðvar o.fl. - 3. mgr. 47. gr.

Framkvæmdinni er lýst í 3. mgr. 47. greinar en þar segir m .a. að þóknunin eigi að fara eftir heildarsamningi milli innheimtusamtaka þ.e. SFH og notanda (RÚV, ÍÚ, ýmis bæjarfélög) eða samtaka hans (Sambands veitinga- og gistihúsa).

4) Ágreiningur um þóknun.

Ef ekki næst samkomulag þ.e. annar aðilinn telur að þóknunin sé ekki sanngjörn er heimilt að skjóta ágreiningsefninu til úrskurðarnefndar skv. 57. grein höfundalaga. Nefnd þessi er skipuð þrem mönnum sem menntamálaráðherra skipar úr hópi 5 manna sem höfundarrétarnefnd skv. 58. grein tilnefnir. Úrskurður nefndarinnar er stjórnarfarsleg fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið, en eigi að síður getur annar hvor aðilinn þó skotið ágreiningnum til úrlausnar almennra dómstóla eftir að niðurstaða er fenginn hjá úrskurðarnefnd.

Sérstaka heimild er að finna í 3. mgr. 47. grein sem veitir nefndinni heimild til að láta notanda sem er t.d. að hefja útvarpsrekstur setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til þóknunin hefur verið ákveðin af nefndinni. Sé tryggingin ekki sett af hálfu notanda getur nefndin mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra markaðshljóðrita uns trygging hefur verið sett.

5) Notkun utan útvarpsstöðva - gjaldskrá.

Tónlist er eins og fram hefur komið dreift á annan hátt en með útvarpi eða sjónvarpi. Þar er um aðra opinbera dreifingu að ræða með spilun hljómplatna, snældna eða úr útvarpstæki í verslunum, vinnustöðum, veitingahúsum, líkamsræktarstöðvum o.fl. Erfitt er að semja sérstaklega við svo marga aðila og hefur því gjaldskrá SFH verið gefin út fyrir slík afnot. Er þessi háttur sá sami og víðast er viðhafður á Norðurlöndum hjá systursamtökum SFH, Gramex í Danmörku og Finnlandi og SAMI og IFPI í Svíþjóð.

Yfirleitt er um tiltölulega lágar fjárhæðir að ræða eins og fram kemur í gjaldskrá SFH sem er að finna annars staðar á heimasíðunni. Kannanir hafa sýnt að þar sem tónlist er leikin örvar það yfirleitt viðskipti fólks. Það er alfarið á valdi eiganda viðkomandi staðar hvort hann telur það þjóna viðskiptum sínum og viðskiptamönnum hvort hann leiki tónlist eða ekki.

Menntamálráðuneytið staðfestir framangreinda gjaldskrá SFH og á þar með að tryggja að gjaldið sé sanngjarnt fyrir notandann.

6) Afnotakvöð.

Almenna reglan er sú að flytjendur og framleiðendur hafa nokkuð rúmar heimildir til að banna að verk þeirra séu notuð hafi ekki verið fyrirfram samið um notin. Notkunin getur t.d. verið fjölföldun á geisladiski eða sjónvarpssending á tónleikum. Undantekningin frá þessum rétti felst í því að heimilt er að nota verk af úgefnum hljómplötum án fyrirframsamninga við viðkomandi flytjanda og framleiðanda hljómplötunnar.Þetta hefur verið nefnt afnotakvöð (compulsory licence eða tvangslicens) að ræða, þ.e. listflytjandi og hljómplötuframleiðandinn er skuldbundinn að heimila notkun notenda, útvarpsstöðva eða skemmtistaða á hljóðriti gegn sanngjarnri þóknun fyrir afnotin.

Sé tónverki hins vegar endurvarpað úr útvarpi til almennings um kapalkerfi þarf að semja við innheimtusamtök flytjenda og framleiðenda, SFH áður en endurvarp á sér stað, svo sem áður er vikið að. Hér er um svonefnda samningskvöð að ræða í stað afnotakvaðar, sem áður gilti skv. l nr. 57/1992. Var breyting þessi gerð til þess að fullnægja ákvæðum tilskipunar Evrópuráðs um höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal (93/83/EBE) frá 27. september 1993.