Persónuverndarstefna

Persónuupplýsingar og lög um höfundarétt

SFH ber ábyrgð á meðferð gagna. Það hefur í för með sér að SFH er skuldbundið til þess á hverjum tíma að uppfylla kröfur gildandi laga um persónuvernd og að hver skráður félagi getur snúið sér til SFH til að framfylgja réttindum sínum samkvæmt persónuverndarlögum, þar með talinn rétturinn til að kynna sér gögn, réttinn til að fá rangar upplýsingar leiðréttar o.s.frv. Hins vegar gilda sérstök sjónarmið og hagsmunir hvað varðar meðferð persónuupplýsinga á sviði höfundaréttar.

Samningskvöð SFH er viðurkennd og SFH er jafnframt með leyfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að innheimta þóknun fyrir hönd flytjenda og hljómplötufyrirtækja þegar tónlistarupptökur þeirra eru fluttar á Íslandi, sbr. samningskvaðaákvæði í 26. gr. a, sbr. 2.mgr. 47. greinar höfundalaga nr. 72/1973. Þessa lögbundnu skyldu er því aðeins hægt að uppfylla þegar höfundaréttur og grenndarréttur er tengdur tilgreindum einstaklingi. Tilgangur SFH með söfnun persónuupplýsinga um rétthafa útgefinnar tónlistar er sá að tengja réttinn til tónlistarinnar viðeigandi einstaklingum og lögpersónum þannig að SFH geti sent áfram greiðslur fyrir tónlistarflutning.

Við söfnum aðeins og vinnum þær persónuupplýsingar sem eru fullnægjandi, viðeigandi og takmarkaðar við það sem nauðsynlegt er hvað varðar það að uppfylla lögbundnar skyldur okkar.

Framangreind þóknun sem um getur í 1. mgr. 47. grein höfundalaga felur í sér að eingöngu SFH hefur rétt og skyldu til að innheimta hana fyrir hönd flytjenda og hljómplötufyrirtækja. SFH hefur þar af leiðandi lögbundna einokun. Það er því ekki hægt að undanþiggja tónlist sína samningum SFH. Flytjendum og hljómplötufyrirtækjum er einungis heimilt að afsala sér framangreindriþóknun sem hver aðili fyrir sig á rétt á samkvæmt áðurnefndu ákvæði höfundalaga.

Tilskipun Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB nr. 2014/26/ESB felur í sér að rétthafar eiga tilkall til einstaklingsbundinna greiðslna fyrir notkun á höfundarétti þeirra. Það hvílir því á SFH sérstök skylda að bera ótvírætt kennsl á hvern rétthafa með það fyrir augum að greiða hverjum og einum sínar einstaklingsbundnu þóknanir.