Stefnur

Stefnur SFH varðandi fjárfestingar, frádrátt frá réttindatekjum, óráðstafanlegar fjárhæðir og áhættusstýringu.

Almenn fjárfestingarstefna
Stjórn skal ávaxta fjármuni félagsins með tryggum hætti, einkum með vörslu á innlánsreikningum banka. Leitast skal við að ávaxta fjármuni félagsins með sem arðbærustum hætti, enda séu fjármunir almennt ekki bundnir lengur en í 3 mánuði.

Almenn stefna um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu þeirra
Áður en ákvörðun um úthlutun á réttindagreiðslum er tekin, skal stjórn draga frá tekjum öll rekstrargjöld og önnur útgjöld SFH þar á meðal framlag til stuðningssjóðs. Miða skal við fjárhæðir í samþykktum ársreikningi SFH. Leitast skal við að halda rekstrarkostnaði í lágmarki, án þess þó að það bitni á starfsemi félagsins. Stjórn er heimilt að setja sérreglur um mismunandi skiptingu á gjöldum til frádráttar af réttindagreiðslum eftir eðli þeirra. Fjármagnstekjum skal ráðstafað við úthlutun til rétthafa með sama hætti og öðrum tekjum.

Notkun óráðstafanlegra fjárhæða
Í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að framkvæma einstaklingsbundna úthlutun vegna þess m.a. að rétthafar finnast ekki, réttindi eru fyrnd eða af öðrum sambærilegum ástæðum er heimilt að viðhafa félagslega úthlutun. Í flytjendadeild skal sérstök þriggja manna úthlutunarnefnd SFH sem kjörin er á aðalfundi annast skipulag slíkra úthlutana sem byggjast á úthlutunarreglum eins og þær eru á hverjum tíma.

Áhættustýringarstefna
Stjórn skal leitast við að lágmarka áhættu við starfsemi SFH. Stjórn félagsins er falið að setja sér og samþykkja áhættustýringarstefnu, í samræmi við ákvæði 6. tl. 5. mgr. 6. gr. ákvæðis laga nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar. Framkvæmd á stefnu þessari má nú finna í úthlutunarreglum SFH.