Spurt og svarað
Hvers vegna þarf samtök eins og SFH til að innheimta gjöld vegna notkunar hljóðrita fyrir flytjendur og útgefendur tónlistar?
Gífurlegur kostnaður færi í það hjá hverjum og einum rétthafa að innheimta fyrir notkun verka sinna hjá öllum útvarpsstöðvum, verslunum, skemmtistöðum og öðrum opinberum stöðum sem leika tónlist af hljómplötum bein eða óbeint.
Sama er uppi á teningnum hjá rekstraraðilum (útvarpsstöðvum, verslunum, veitingastöðum o.fl.) sem þyrftu að greiða hverjum og einum rétthafa. Það sparar bæði tíma og kostað að ein samtök eins og SFH sjái um þessa innheimtu og umsýslu.
Hver er munurinn á SFH og STEF?
SFH gætir réttinda flytjenda og útgefenda hljóðrita. STEF gætir réttinda höfunda tónlistar. Ef þú ert bæði flytjandi tónlistar og höfundur tónlistar er æskilegt að vera skráður í bæði félögin.
Það kostar ekkert að vera meðlimur í STEF og SFH.
Hvernig gerist ég meðlimur í SFH?
Það er einfalt og fljótlegt að skrá sig í SFH. Það eina sem þú þarft að gera er að fylla út eyðublað og skrifa undir það með rafrænum skilríkjum. Þú getur skráð þig í SFH með því að smella hér.
Það er endurgjaldslaust að vera meðlimur í SFH.
Ég hef leikið inn á hljóðrit sem er spilað í útvarpi. Hvaða réttindi hef ég?
Allir flytjendur hljóðrita eiga rétt á greiðslu þegar hljóðrit er leikið á opinberum vettvangi. Þú þarft að vera skráð/ur sem einn af flytjendum hljóðritsins. Þú getur séð hvaða hljóðrit þú ert skráð/ur á inni á mínum síðum.
SFH sér síðan um að greiða þér þóknun eftir því hve hljóðritið er mikið spilað í útvarpi.
Fá allir söngvarar og hljómlistarmenn jafn mikið greitt fyrir þátt sinn í hljóðritinu?
Það hlutverk sem flytjandi er skráður fyrir ákvarðar hversu mikið viðkomandi fær greitt í þóknun fyrir viðkomandi hljóðrit.
Aðalflytjandi og hljómsveitarmeðlimir fá meira en aðrir flytjendur sem ráðnir eru til tónlistarflutnings í hjóðveri. Um það gildir svonefnt punktakerfi. Sjá nánar hér.
Hvað er ISRC kóði?
ISRC (International Standard Recording Code) er alþjóðlegur staðall sem ætlað er að hjálpa til við að auðkenna hljóðrit, t.d. þegar hljóðrit er spilað á útvarpsstöðvum og á streymisveitum á borð við Spotify. Mikilvægt er að öll úgefin hljóðrit hafi ISRC kóða á bak við sig.
SFH sér um útgáfu ISRC kóða á Íslandi. Þú getur fengið ISRC kóða úthlutaða á vefsíðunni Hljóðrit.is
Endurnýta skal ISRC kóða þegar lag kemur út á fleiri en einni plötu. Þegar hljóðriti er hins vegar breytt, t.d. með endurhljóðblöndun, nýrri masteringu, lengingu, styttingu skal gefa út nýjan ISRC kóða fyrir þá útgáfu.
Hvar fæ ég greitt hafi ég samið tónlist fyrir kvikmyndir?
STEF sér um þessar greiðslur. Smelltu hér til að opna vefsíðu STEFs.
Ef ég er laga- og textahöfundur? Hvað geri ég þá?
Mælt er með því að laga- og textahöfundar skrái sig í STEF. Smelltu hér til að opna vefsíðu STEFs.
Hvar fæ ég greitt fyrir tónlistarflutning á tónleikum?
Sem hljómlistarmaður færðu greitt frá tónleikahaldara, ekki frá SFH. Aftur á móti ef þú hefur samið tónlistina innheimtir STEF fyrir það. Þú þarft að skila inn spilanalista til STEFs fyrir tónleikana. Þetta á við bæði varðandi tónleika sem haldnir eru hérlendis og erlendis. Smelltu hér til að opna vefsíðu STEFs.
Hvað ef ég er tónlistarforleggjari (publisher)?
Tónlistarforleggjurum er bent á vefsvæði STEFs. Smelltu hér til að opna vefsíðu STEFs.
Hversu oft greiðir SFH út?
SFH greiðir að jafnaði út einu sinni á ári.
Fæ ég greitt fyrir útvarpsspilun erlendis?
SFH er í alþjóðlegu samstarfi við sambærileg samtök erlendis og hefur gert fjölmarga samninga við erlend systursamtök. Samningarnir gera SFH kleift að innheimta þóknun vegna opinberrar spilunar erlendis.
Hvers vegna þurfa útvarpsstöðvar, sjónvarpsstöðvar og rekstraraðilar að greiða SFH?
Starfsemi SFH er byggð á heimildarákvæði 47. greinar höfundalaga, sem á rætur sínar að rekja til 12. greinar alþjóðlegs sáttmála, Rómarsáttmálans, um vernd á réttindum flytjenda, útgefenda o.fl. frá árinu 1961.
Í athugasemdum með greininni sem sjá má á heimasíðu WIPO kom m.a. fram að rökin fyrir sanngjörnu endurgjaldi voru af hálfu flytjenda (hljómlistarmanna, leikara og fl.) þau að notkun á hljóðritum minnkaði stórlega tekjuöflun flytjenda við að koma opinberlega fram í eigin persónu svo sem á tónleikum og í útvarpi. Hljómplatan og hljóðritin leystu að hluta til lifandi flutninginn af hólmi.
Af hálfu útgefenda er því haldið fram að þar sem hljómplatan nær með útvarpi til svo stórs áheyrendahóps hafi slík hlustun dregið úr sölu á tónlist. Færra fólk keypti því plötur í verslunum vegna þess að það hafði þegar hlustað á plötuna. Eftirvæntingin varð því minni. Einnig hefur verið bent á þá staðreynd að stærstur hluti efnis í dagskrá tónlistarútvarpsstöðva er byggður á spilun hljómplatna með efni frá framleiðendum, sem þeir hafa fjármagnað. Þetta er því ódýrt útvarpsefni og eðlilegt að útgefendur fái sanngjarna þóknun fyrir spilun efnisins á útvarpsstöðvum.
Hvað eiga eigendur veitingahúsa, verslana og fleiri staða sem leika t.d. tónlist af hljómplötum í húsakynnum sínum að greiða til SFH?
Gjaldið er yfirleitt miðað við stærð eða gestafjölda viðkomandi greiðsluaðila. Smelltu hér til að skoða gjaldskrá SFH.
Ef ég er með samning við SFH (og STEF) um greiðslu vegna tónlistar sem ég nota í atvinnurekstri mínum, get ég þá spilað alla tónlist?
Já, það getur þú gert.
Hvað eiga útvarpsstöðvar að greiða til SFH?
Minni svæðisbundar útvarpsstöðvar sem reknar eru tímabundið, t.d. skólaútvörp greiða samkvæmt gjaldskrá SFH. Stærri útvarpsstöðvar semja beint við SFH.
Er hægt að sækja um styrki fyrir tónlistarmenn t.d. til tónleikahalds, tónlistarupptöku eða ferðastyrki?
Já, það er hægt að gera það með því að senda inn umsókn til Menningarsjóðs FÍH. Sjá nánar á vefsíðu FÍH.